Þórhildur Sunna fagnar miklum áfangasigri

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingflokksformaður Pírata.
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingflokksformaður Pírata. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingflokksformaður Pírata og varaformaður Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins, segir samþykkt laga- og mannréttindanefndar Evrópuráðsþingsins þess efnis að lagt verði fyrir Evrópuráðsþingið að það álykti að Julian Assange, stofnandi Wikileaks, hafi verið pólitískur fangi mikinn áfangasigur.

Þórhildur Sunna hefur undanfarna mánuði unnið að skýrslu fyrir Evrópuráðið vegna varðhaldsins á Julian Assange í Bretlandi og kælandi áhrifum þess á tjáningarfrelsi og fjölmiðlafrelsi á heimsvísu en laga- og mannréttindanefndin samþykkti skýrsluna í fyrradag og er hún þar með orðin að formlegri skýrslu nefndarinnar.

Skýrslan verður næst rædd á Evrópuráðsþinginu í byrjun október og borin upp til atkvæða.

Ein helsta stofnun Evrópuþingsins 

Spurð hvaða þýðingu þessi samþykkt nefndarinnar hefur, segir Þórhildur að um mikinn áfangasigur sé að ræða. Hún segir laga- og mannréttindanefndin sé ein helsta stofnun Evrópuráðsþingsins þegar komi að mati á hvort aðildarríki séu að standa við skuldbindingar sínar þegar kemur að vernd grundvallarmannréttinda.

„Það að laga- og mannréttindanefndin hafi samþykkt skýrslu sem kemst að þeirri ályktun að Julian Assange hafi verið pólitískur fangi í þeim skilningi sem Evrópuráðið leggur í það hugtak er mjög mikilvægur áfangi á þeirri vegferð minni að fá Evrópuráðsþingið til að greiða þeirri ályktun atkvæði sitt og þá verður það þingsályktun frá Evrópuþinginu,“ segir Þórhildur Sunna.

Julian Assange.
Julian Assange. Ljósmynd/AFP

Játaði sig sekan

Assange hafði verið í haldi í Bretlandi frá árinu 2019 vegna framsalsbeiðni frá Bandaríkjunum um hann.

Assange var gert að sök að hafa brotið á 17 liðum svokallaðra þjóðernislaga sem upphaflega voru samin til að sækja óvinveitta erlenda njósnara í Bandaríkjunum.

Ef hann hefði verið framseldur og réttað yfir honum í Bandaríkjunum hafði hann átt yfir höfði sér allt að 174 ára fangelsisdóm í öryggisfangelsi.

Í sumar gerði Assange hinsvegar samning við bandarísk yfirvöld þess efnis að gegn því að lýsa sig sekan um einn ákærulið um sam­særi, sem sneri að birt­ingu trúnaðar­gagna, myndi hann ganga frjáls.

Mjög fordæmisgefandi

Spurð hvernig varðhald Assange hafi haft kælandi áhrif á fjölmiðla og tjáningarfrelsi í heiminum útskýrir Þórhildur Sunna að þjóðernislögin svokölluðu hafi aldrei verið notuð gegn blaðamanni eða útgefanda áður og að því sé málið mjög fordæmisgefandi.

„Það sem þetta segir okkur er að það skiptir ekki einu sinni máli hvar þú ert, þú þarft ekki einu sinni að vera staddur í Bandaríkjunum til þess að Bandaríkin komi á eftir þér ef þau líta svo á að þú hafir brotið gegn hagsmunum sínum með því að upplýsa almenning um víðtæk mannréttindabrot, grun um stórfellda stríðsglæpi, pyntingar, mannrán, leynifangelsi og allt það sem Wikileaks upplýsti almenning um árið 2010 og hefur verið að upplýsa almenning um síðan.“ 

Ekki til þess fallið að styrkja fjölmiðlafrelsi

„Þetta gæti þýtt að afleiðingarnar fyrir þig séu þrjár lífstíðarfangelsisvistir í bandarísku háöryggisfangelsi,“ segir Þórhildur Sunna og bætir við:

„Það er auðvitað ekki til þess fallið að styrkja fjölmiðlafrelsi í heiminum heldur þvert á móti veikja það verulega þar sem enginn virðist vera óhultur, hvar sem hann er staddur og hvers þjóðar sem hann er.

Vestræn lýðsræðisríki eru tilbúin að geyma þig í öryggisfangelsi í fjögur ár til þess að senda þig áfram til Bandaríkjanna.“

Í þessu samhengi útskýrir Þórhildur Sunna að í skýrslu mannréttindanefndarinnar séu gerðar athugasemdir við bresk lög um framsal því þau verja fólk ekki frá framsali sem er pólitísks eðlis.

Gat ekki reitt sig á lögin

„Lögin í Bretlandi voru þannig að það var undanþága frá því að þurfa að framselja einstaklinga sem óskað var eftir að framselja vegna pólitískra ástæðna en eftir að lögunum var breytt var því ekki haldið inni.

Þrátt fyrir að milliríkjasamningurinn milli Bretlands og Bandaríkjanna innihaldi slíka undanþágu eða undantekningu þá fékk Julian Assange ekki að reiða sig á hana fyrir dómsstólum í Bandaríkjunum þar sem það var ekki búið að innleiða hana í bresk lög,“ segir Þórhildur Sunna og bætir við:

„Þarna erum við að hvetja bresk stjórnvöld til að skoða þetta ofan í kjölinn, að laga þessa glufu og réttarvernd gegn fólki sem að gæti verið óskað eftir því að fá framsal á á ómálefnalegum forsendum.“

Þá segir hún að lagaglufan gæti ekki einungis nýst Bandaríkjunum heldur líka öðrum ríkjum sem „við hefðum alla jafna meiri áhyggjur af að væru að sækjast eftir því að fá stjórnarandstæðinga eða aðra sem þeim eru í nöp við framselda til sín til þess að geta einmitt fangelsað þá eða eitthvað þaðan af verra á ómálefnalegum forsendum“.

Gæti haft mikil áhrif á Bretland

Loks segir Þórhildur Sunna að í skýrslunni sé einnig farið fram á að rannsakað verði hvort að Assange hafi sætt pyntingum á meðan hann var í haldi

„Sérstakur skýrslugjafi Sameinuðu þjóðanna [...] komst að þeirri niðurstöðu árið 2019 að aðstæður Julian Assange væru með þeim hætti að hann hafi sætt andlegum eða sálfræðilegum pyntingum,“ útskýrir hún og bætir við:

„Bretlandi ber samkvæmt sínum skuldbindingum gagnvart alþjóðalögum að rannsaka allar trúverðugar ásakanir um að pynting hafi átt sér stað en þeir hafa ekki gert það í þessu máli þrátt fyrir þessa niðurstöðu sérstaks skýrslugjafa.“

Að lokum segir hún að ef að bresk yfirvöld taki mark á því sem fram kemur í skýrslunni gæti hún haft mikil áhrif á landið.

Það er þó að því gefnu að Evrópuráðsþingið samþykki skýrsluna og þær ályktanir sem fram koma í henni í byrjun október en Þórhildur Sunna er vongóð á að það gangi eftir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert