Hæstiréttur hafnar að taka fyrir minnsta Gnúpsmálið

Jón Þór Ólason er lögmaður Áslaugar og Gísli Guðni Hall …
Jón Þór Ólason er lögmaður Áslaugar og Gísli Guðni Hall lögmaður Sólveigar í málinu. Þeir sjást hér í héraðsdómi í öðru Gnúpsmáli árið 2022. mbl.is/Árni Sæberg

Hæstiréttur hefur hafnað beiðni Áslaugar Björnsdóttur um áfrýjunarleyfi í máli hennar gegn Sólveigu Guðrúnu Pétursdóttur, fyrrverandi dómsmálaráðherra, en málið er eitt af þremur sem höfðuð hafa verið í tengslum við fjárfestingafélagið Gnúp, fjárhagslega endurskipulagningu þess árið 2008 og síðar afskráningu þess, en félagið hafði verið tæknilega gjaldþrota til fjölda ára.

Á árunum fyrir hrun var það eitt af stærstu fjárfestingafélögum landsins og átti til að mynda stóran hlut í Kaupþingi og FL Group.

Þetta er minnsta málið af þeim þremur sem rekin hafa verið á undanförnum árum og tengjast Gnúpi, en Áslaug og systkini hennar voru eigendur að tæplega helmingshlut í Gnúpi í gegnum fjölskyldufélagið Björn Hallgrímsson ehf. Meðal systkina hennar var Kristinn Björnsson, fyrrverandi forstjóri Skeljungs og eiginmaður Sólveigar, en hann hafði verið í forsvari fyrir fjölskyldufyrirtækið. Er málið höfðað gegn Sólveigu, þar sem hún situr í óskiptu búi Kristins.

Snýst um 13 milljónir

Í þessu máli taldi Áslaug Kristin hafa blekkt sig til að greiða kröfu uppá tæplega 13 milljónir sem Áslaug var látin greiða vegna rekstrarkostnaðar Gnúps fram til janúar 2008. Taldi hún Kristin hafa beitt sig blekkingum til að greiða upphæðina.

Bæði héraðsdómur og Landsréttur höfðu sýknað Sólveigu af kröfum Áslaugar og taldi Hæstiréttur að ekki væri verulegt almennt gildi í að taka málið fyrir né að málsmeðferð Landsréttar eða héraðsdóms hefði verið stórlega ábótavant eða dómar bersýnilega rangir. Var beiðninni því hafnað.

Tvö stærri mál

Líkt og áður segir er þetta ekki eina málið sem er í gangi tengt Gnúpi, en sonur eignaðist fjölskyldufyrirtækið Björn Hallgrímsson frá Glitni eftir hrun, en þá hét félagið Lyfjablóm. Stendur félagið í málaferlum í svokölluðu 46 milljón króna máli og í öðru máli sem er öllu stærra, eða Gnúpsmálið svokallaða, en þar er farið fram á 2,3 milljarða.

Fyrra málið var höfðað gegn Birki Kristjánssyni fjárfesti, Stefáni Bergssyni endurskoðanda og fyrrverandi vinnuveitanda hans PWC, og Sólveigu Pétursdóttur. Bíður málið nú afgreiðslu Landsréttar, en sýknað var í héraði.

Stóra málið er hins vegar höfðað gegn Sólveigu og fjárfestinum Þórði Má Jóhannessyni, en Þórður var minnihlutaeigandi í Gnúpi á móti fjölskyldu Áslaugar og fjárfestinum Magnúsi Kristinssyni. Það mál er nú til meðferðar hjá Landsrétti eftir sýknu í héraði, en áður lýsti allur Landsréttur sig vanhæfan af því að taka það mál fyrir, en Landsréttardómarinn Aðalsteinn E. Jónasson var áður aðallögfræðingur Gnúps.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert