Slíta eigi stjórninni verði Yazan vísað brott

Bryndís Ýrr hélt á stórum borða ásamt nokkrum öðrum.
Bryndís Ýrr hélt á stórum borða ásamt nokkrum öðrum. mbl.is/Hermann

„Ég er komin hérna til þess að styðja Yazan og hans mannréttindi sem barn. Hér er verið að þverbrjóta barnasáttmálann og hann [Yazan Tamimi] er – eins og við vitum – langveikt barn og búið að þvæla honum um á grimmilegan máta,“ segir Bryndís Ýrr Baldursdóttir, sem var einn af þeim um það bil 200 mótmælendum sem mættu fyrir utan fund ríkisstjórnarinnar í morgun.

Yazan Tamimi og fjölskyldu hans á að flytja af landi brott til Spánar þar sem þau eiga rétt á því að sækja um alþjóðlega vernd. 

Kærunefnd útlendingamála hefur komist að þeirri niðurstöðu að fjölskyldan uppfylli ekki skilyrði þess að sækja um alþjóðlega vernd hér á landi. 

Yazan er langveikt barn frá Palestínu og hefur mál hans og fjölskyldu hans vakið reiði meðal sumra. 

Hrædd um að hann verði sendur út

Bryndís kveðst hrædd um það að þrátt fyrir mótmælin þá verði honum vísað af landinu.

Spurð hvort að hún telji að Vinstri græn eigi að slíta samstarfinu ef honum verður vísað af landi brott segir Bryndís:

„Já mér finnst það alveg klárlega. Mér finnst dómsmálaráðherra vera að brjóta lög, lög sem hafa verið höfð í hávegum hér á landi síðan ég man eftir mér. Það finnst mér ekki lagi og ekki boðlegt í okkar samfélagi því mér finnst það gefa fordæmi fyrir því að brjóta á öðrum börnum.“

Svandís telur að niðurstaðan „verði góð fyr­ir Yaz­an“

Niðurstaða ríkisstjórnarfundarins er óljós en á laugardag verður mál fjölskyldunnar tekið enn á ný til efnismeðferðar ef honum verður ekki vísað frá landi.

Ráðherrar VG virtust gefa þann tón að fjölskyldunni yrði ekki vísað frá landi. 

„Ég er að segja að niðurstaðan okk­ar og umræðan í rík­is­stjórn gaf til­efni til að ætla að rík­is­stjórn­in muni standa þetta af sér og að niðurstaðan verði góð fyr­ir Yaz­an og fjöl­skyldu hans,“ sagði Svandís í samtali við mbl.is að ríkisstjórnarfundi loknum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka