„Staðan er grafalvarleg“

„Það er óraunhæft að ná fullum orkuskiptum árið 2050,“ segir …
„Það er óraunhæft að ná fullum orkuskiptum árið 2050,“ segir Guðmundur Ingi. mbl.is/Sigurður Bogi

„Næstu fjögur til fimm árin verða mjög erfið og líkur á að einhverjar raforkuskerðingar verði og það bætir ekki úr skák að við erum að fara inn í næsta ár með mjög lága vatnsstöðu í uppistöðulónum sem gæti þýtt að ekki verði næg forgangsorka til í kerfinu,“ segir Guðmundur Ingi Ásmundsson forstjóri Landsnets í samtali við Morgunblaðið, en fyrirtækið sendi frá sér nýja orkuspá í gær sem tekur til áranna 2024 til 2050.

„Staðan er grafalvarleg,“ segir hann, en bendir á að nýjar virkjunarframkvæmdir eigi að fara af stað samkvæmt rammaáætlun og ný orka koma inn á kerfið.

„Það er þó óvissa um framkvæmdir sem búið er að samþykkja og ef þær framkvæmdir raungerast ekki verður staðan enn verri,“ segir Guðmundur Ingi.

„Við erum að súpa seyðið af því að framkvæmdir í raforkukerfinu, hvort heldur sem er í flutningskerfinu eða í virkjunum, hafa ekki fylgt þróun í eftirspurn eftir,“ segir hann.

Guðmundur Ingi bendir á að íslensk stjórnvöld hafi lýst því yfir að ætlunin sé að ná fullum orkuskiptum 2050, en Landsnet hafi bent á að ólíklegt sé að það markmið náist, enda þurfi þá að tvöfalda raforkuframleiðslu í landinu á tímabilinu. Evrópusambandið geri aftur á móti ráð fyrir 70% orkuskiptum á sama tíma og ef Ísland setti sér það markmið væri líklegra að ná til lands það ár.

„Það er óraunhæft að ná fullum orkuskiptum árið 2050,“ segir Guðmundur Ingi.

Í spá Landsnets er sagt fyrirséð að aflskortur verði viðvarandi í raforkukerfinu frá árinu 2028, hvort sem ástæðan sé óheppileg vindskilyrði eða ófullnægjandi aflgeta virkjana. Í lok spátímabilsins gerir fyrirtækið ráð fyrir að stýranlegt afl verði á bilinu 65-87% af aflþörf í kerfinu, eftir því til hvaða sviðsmyndar sé litið. Þá vanti afl á bilinu 640 til 2.250 megavött til að mæta eftirspurn.

Í spánni segir að vindorka og aðrir breytilegir orkugjafar geti dregið úr aflskorti en erfitt sé að gera ráð fyrir að þeir muni útrýma honum. Aðrar lausnir þurfi að koma til, eru þar nefndar bæði markaðslausnir og fleiri virkjanir.

Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka