Andlát: Kristinn Már Stefánsson

Kristinn Már Stefánsson, fyrrverandi landsliðsmaður og landsliðsþjálfari í körfuknattleik, lést sl. föstudag á Hjúkrunarheimilinu Sóltúni eftir veikindi, 79 ára að aldri.

Kristinn fæddist í Reykjavík 3. júní 1945, ólst upp í Vesturbænum en ættaður frá Seyðisfirði og úr Borgarfirði. Foreldrar Kristins voru þau Steinunn Kristín Þórarinsdóttir og Stefán Hannesson.

Gekk Kristinn í Melaskóla, Hagaskóla og Verslunarskólann. Starfsferill hans hófst hjá Stálsmiðjunni en hann starfaði nánast alla starfsævina sem bókari.

Þekktastur er Kristinn fyrir afskipti sín af körfuknattleiknum. Hannes S. Jónsson formaður KKÍ orðaði það þannig við Morgunblaðið í gær að karfan hefði verið líf og yndi Kristins. Hann hefði enn verið mjög áhugasamur um íþróttina á efri árum og viljað leggja gott til mála.

Kristinn lék með KR og var gallharður KR-ingur alla tíð. Hann var í sigursælu liði sem varð fimm sinnum Íslandsmeistari og fimm sinnum bikarmeistari. Kristinn lék sem miðherji og á yfir 300 leiki fyrir KR frá 1962-77 en auk þess 34 A-landsleiki. Var hann valinn leikmaður ársins árið 1974.

Afskiptum Kristins af íþróttinni lauk ekki þegar keppnisferlinum sleppti. Hann þjálfaði hjá KR og var landsliðsþjálfari karla ásamt Birgi Erni Birgis árið 1976. Hann átti árum saman sæti í stjórn körfuknattleiksdeildar KR og körfuboltasambandsins. Var hann um tíma gjaldkeri KKÍ.

Kristinn var ásamt Einari Bollasyni hvatamaður að stofnun aganefndar innan KKÍ þegar hann var enn leikmaður og sömdu þeir fyrstu reglur nefndarinnar. Til gamans má geta að í bókinni Leikni framar líkamsburðum kemur jafnframt fram að fyrstu mennirnir sem dæmdir voru í leikbann af aganefndinni voru einmitt þeir Kristinn og Einar.

Kristinn eignaðist þrjú börn með Magnúsínu G. Valdimarsdóttur. Þau skildu árið 1989. Börn þeirra eru Stefán Már, Björgvin Már og Kristín Ásta en barnabörnin eru níu og eitt barnabarnabarn.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert