„Ég er ekki alveg kominn á eftirlaunaaldur“

Brynjar Níelsson.
Brynjar Níelsson. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Það hefur nú staðið til lengi að ég ætlaði að hætta í stjórnmálum. Ég ætlaði nú að gera það eftir síðustu kosningar, í rauninni eftir síðasta prófkjör,“ segir Brynjar Níelsson sem hefur sagt af sér sem varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins. Sjálfur veit hann ekki hvort hann fari í stjórn nýrrar Mannréttindastofnunar og segist hann ætla að kíkja á atvinnumarkaðinn.

Segist Brynjar hafa tilkynnt það fyrir mörgum dögum síðan að hann hygðist segja af sér þegar þingið tæki aftur til starfa og segir ákvörðunina ekki hafa verið erfiða. Hann hafi ætlað að vera löngu búinn að því en ákveðið að bíða með ákvörðunina á meðan hann sinnti störfum fyrir fjármálaráðherra og utanríkisráðherra.

„Það var bara á meðan ég var í þessum störfum og tengdur pólitíkinni að þá gerði ég það ekki. En þegar þessum störfum var lokið þá var svo sem ekkert annað að gera.“

Tengist Mannréttindastofnun ekki með beinum hætti

Aðspurður segir Brynjar afsögnina ekki tengjast með beinum hætti tillögu Hildar Sverrisdóttur um að hann verði fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í stjórn nýrrar Mannréttindastofnunar. Bendir Brynjar á að þó vissulega megi þingmenn ekki sitja í stjórn stofnunarinnar hafi ákvörðunin um að hætta verið tekin áður en hugmyndir fóru að mótast um setu hans í stjórn Mannréttindastofnunarinnar.

„Þannig það er ekki bein tenging skulum við segja.“

Hvernig standa þá málin núna varðandi þig og Mannréttindastofnunina?

„Ég hef ekki hugmynd um það. Ég var bara spurður að því hvort ég væri tilbúinn til að fara í stjórn þessarar stofnunar ef til kæmi og ég sagði já. Síðan er það bara ekki í mínum höndum,“ segir fyrrum varaþingmaðurinn.

Segist hann þá heldur ekki vita hvenær það mun koma í ljós.

„Þú þyrftir að spyrja þingflokksformennina. Þeir hljóta að vita eitthvað um hvernig þetta þróast. Það þarf væntanlega að kjósa einhvern tímann um þetta á þingi.“

Leitar á vinnumarkaðinn

Hvað tekur þá við hjá þér núna?

„Núna verð ég, bara eins og aðrir menn, að kíkja á vinnumarkaðinn,“ segir Brynjar og bætir við:

„Ég er ekki alveg kominn á eftirlaunaaldur.“

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert