Einróma stuðningur við virkjanir

Gefið hefur verði út virkjunarleyfi fyrir Hvammsvirkjun í Þjórsá.
Gefið hefur verði út virkjunarleyfi fyrir Hvammsvirkjun í Þjórsá. Tölvumynd/Landsvirkjun

Yfirgnæfandi meirihluti landsmanna er hlynntur frekari virkjun orku í landinu, en andstaðan hverfandi, samkvæmt skoðanakönnun Gallup um umhverfismál, sem gerð var fyrir Samtök atvinnulífsins (SA).

Í heildina voru 83% hlynnt „aukinni grænni orkuframleiðslu“ í landinu, um 15% tóku ekki afstöðu, en aðeins 2,6% voru andvíg frekari orkuöflun.

Ef aðeins er horft til þeirra, sem afstöðu tóku, eru 97% svarenda hlynnt aukinni virkjun orku, en 3% andvíg.

Spurt var: „Ert þú hlynnt(ur) eða andvíg(ur) aukinni grænni orkuframleiðslu á Íslandi?“ til þess að aðgreina virkjun umhverfisvænna og endurnýjanlegra orkuauðlinda frá raforkuframleiðslu með bruna jarðefnaeldsneytis.

Könnun Gallup var gerð 23. ágúst til 5. september, en allmargar spurningar um umhverfismál voru þar lagðar fyrir 1.943 manna úrtak fólks af öllu landinu, 18 ára og eldra, sem valið var af handahófi úr viðhorfshópi Gallup. 928 svöruðu og svarhlutfall því 48%.

Kemur ekki á óvart

Morgunblaðið bar þessi tíðindi undir Bjarna Benediktsson forsætisráðherra, sem sagði niðurstöðurnar ríma við tilfinningu sína um almenna afstöðu landsmanna og stefnu Sjálfstæðisflokksins í orkumálum.

„Góð lífskjör á Íslandi eru nátengd nýtingu grænna virkjanakosta, fallvatna og heita vatnsins. Þannig verður það áfram,“ segir Bjarni. „Þessu gera Íslendingar sér vel grein fyrir og því kemur þessi niðurstaða ekki á óvart.“

Sigríður Margrét Oddsdóttir framkvæmdastjóri SA tekur í sama streng og minnir á að orka sé undirstaða hagsældar í heiminum.

„Það er feiknasterk fylgni milli orkunotkunar þjóða og þeirra verðmæta sem þær skapa. Það er því ánægjulegt að sjá ný orkuverkefni fara af stað, Suðurnesjalínu tvö og jarðhitaleitarátak. En betur má ef duga skal,“ segir hún, aukin græn orkuframleiðsla sé nauðsynleg til þess að halda orkuverði samkeppnishæfu.

„Þannig tryggjum við að tækifærin séu fyrir hendi til þess að hægt sé að skapa verðmæti hér á landi og undirbúum jarðveginn til þess að ráðast í orkuskiptin af fullum krafti,“ segir hún og hvetur til að stjórnsýsla í tengslum við orkuöflun hér á landi verði einfölduð til muna.

Sigríður Margrét segir nauðsynlegt að tvöfalda græna orkuframleiðslu á Íslandi til þess að ljúka orkuskiptum að fullu.

Könnun Gallup var gerð til þess að afla svara fyrir ársfund SA, sem haldinn verður í Hörpu í dag og hefst kl. 15.00. Á fundinum verður sjónum sérstaklega beint að umhverfisvænu atvinnulífi undir kjörorðinu „Samtaka um grænar lausnir“.

Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka