Erlendir fangar sendir til útlanda?

Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra.
Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra. mbl.is/Eyþór

Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra segir sjálfsagt að skoða það að semja við önnur ríki um að hýsa fanga með erlent ríkisfang sem hlotið hafa dóm á Íslandi. 

Þetta kemur fram í skriflegu svari hennar við fyrirspurn mbl.is.

28% þeirra sem afplánuðu dóm hér á landi árið 2023 voru erlendir ríkisborgarar og hefur sú tala aldrei verið hærri. 

„Það hefur ekki komið til sérstakrar skoðunar í dómsmálaráðuneytinu að semja við önnur ríki um að hýsa fanga með erlendan ríkisborgararétt, og engin kostnaðargreining hefur farið fram á slíku úrræði hingað til.

Hins vegar finnst mér sjálfsagt að skoða slík úrræði, enda er ljóst að sífellt fleiri lönd eru farin að skoða þennan möguleika, í ljósi aukins þrýstings á fangelsiskerfin um allan heim. Sérstaklega í tilfellum fanga sem komu hingað til lands í þeim eina tilgangi að stunda glæpi og hafa engin önnur tengsl við Ísland,“ segir Guðrún.

Bretar skoða að senda fanga til Eistlands

Dagblaðið Telegraph greindi frá því nýverið að Eistland væri tilbúið að bjóða öðrum Evrópuríkjum að semja við landið um að hýsa fanga, þar sem um helmingur fangelsisplássa í Eistlandi eru ekki í notkun.

Dómsmálaráðherra Bretlands er til að mynda að skoða þennan möguleika í ljósi þess að fangelsin í Bretlandi eru orðin full.

Fjölgun fanga á Íslandi blasir við

Páll Winkel, fráfarandi fang­els­is­mála­stjóri, sagði í sam­tali við mbl.is í sum­ar að skandi­nav­íska fang­els­is­mód­elið væri í hættu vegna áhrifa skipu­lagðrar glæp­a­starf­semi og auk­inn­ar hörku.

Nefndi hann að það blasti við að föng­um myndi fjölga á næstu árum. Meðalbiðtími eft­ir afplán­un er eitt ár og 10 mánuðir og á þriðja hundrað manns eru á boðun­arlista til afplán­un­ar fulln­ustu refs­inga.

Hlutfall erlendra ríkisborgara sem afplána dóm á Íslandi hefur aldrei verið hærra en í fyrra, samkvæmt svörum frá fangelsismálastofnun. Árið 2023 voru 137 sem afplánuðu dóm hér á landi og þar af voru 28% útlendingar, eða 38 fangar.

Árið 2019 var sú tala 19% og breytt­ist sú tala lítið þar til á síðasta ári. Þá voru 75% gæsluvarðhaldsfanga á Íslandi á síðasta ári erlendir ríkisborgarar.

Danir og Bretar líta á þetta sem raunhæfan möguleika

Guðrún segir mikilvægt að tryggja að réttarkerfið á Íslandi sé í takt við bestu alþjóðlegu viðmið og þróun til að mæta þeim áskorunum sem þjóðin standi frammi fyrir í refsivörslukerfinu.

„Okkar áskoranir í refsivörslukerfinu eru ekki séríslenskar heldur eru þau lönd sem við viljum helst bera okkur saman við, til dæmis Danmörk og Bretland, að glíma við sambærilegar áskoranir hvað varðar yfirfull fangelsi. Þau líta á þessa lausn sem raunhæfan möguleika til að leysa þann vanda,“ segir hún.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert