Grænlendingar vildu ekki fá björninn til baka

Hvítabjörnin var fluttur til Reykjavíkur í kvöld
Hvítabjörnin var fluttur til Reykjavíkur í kvöld mbl.is/Eyþór

Hvítabjörninn sem var felldur á Höfðaströnd í Jökulfjörðum var húnn, annað hvort frá því í vor eða fyrravor. Þetta segir Þorvaldur Þór Björnsson, hamskeri hjá Náttúrufræðistofnun Íslands, í samtali við mbl.is.

Þorvaldur var viðstaddur þegar þyrla landhelgisgæslunnar lenti með hræið í Reykjavík fyrr í kvöld. Ekki liggur enn fyrir hvort um kvendýr eða karldýr sé að ræða en það verður kannað á morgun.

Verður farið í alsherjartékk

„Það verður farið í alsherjartékk á morgun áður en við ákveðum hvað verður gert,“ segir Þorvaldur en ganga þarf úr skugga um ýmislegt.

 „Það verður tékkað á ýmsu því að birnirnir eru þekktir fyrir að vera allir úti í bakteríum sem geta verið hættulegar mönnum,“ segir Þorvaldur en hann segir að meðal annars geti björninn borið með sér hundaæði og fuglaflensu.  

Þá verður sömuleiðis tekið DNA-sýni úr birninum og kannað af hvorum Grænlandsstofninum hann er. 

Danirnir sögðu nei

Þá segir Þorvaldur að margir séu reiðist yfir því þegar hvítabirnir eru skotnir en yfirleitt er ekkert annað í stöðunni.

„Ég þarf yfirleitt að taka símann úr sambandi á nóttunni þegar svona er því fólk hringir sem vill að við skjótum þá ekki heldur sleppum þeim,“ segir Þorvaldur og bætir við:

„Málið er að það vill enginn taka við þeim. Það var búið að tala við dýralækni í Grænlandi [þegar björninn sást fyrst í dag] en hann sagði að þau vildu alls ekki fá hann af því þeir eru með nóg af dýrum. Þó svo að talað sé um að þeir séu í útrýmingarhættu þá kemur það annars staðar að.“

Þá segir Þorvaldur að reynt hafi verið að bjarga hvítabirni sem kom hingað til lands 2008 en að það hafi ekki gengið.

„Það átti að reyna að gera allt til að koma honum í burtu, varðskip beið fyrir utan og allt, það átti að fara með hann út [...] en það þurfti að tala við þá í Danmörku fyrir hönd Grænlendinga og þeir sögðu bara „Nei við tökum ekki við þessu. Þetta getur verið sjúkt dýr“.“ 

Þorvaldur Þór Björnsson tók á móti birninum.
Þorvaldur Þór Björnsson tók á móti birninum. mbl.is/Eyþór
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert