Ísland og Indónesía hyggja á samstarf

Sendiherra Íslands, Stefán Haukur Jóhannesson og Pahala Mansyurc, varautanríkisráðherra Indónesíu.
Sendiherra Íslands, Stefán Haukur Jóhannesson og Pahala Mansyurc, varautanríkisráðherra Indónesíu. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Viljayfirlýsing um samstarf Íslands og Indónesíu í jarðhitamálum var undirrituð í gær á árlegu jarðhitaþingi (IIGCE) sem fram fór í Jakarta, höfuðborg Indónesíu.

Samstarfið lýtur að endurnýjanlegri orku, með áherslu á þróun jarðhita. 

Yfirlýsingunni er meðal annars ætlað að styðja við íslensk jarðhitafyrirtæki í áframhaldandi markaðssókn í Indónesíu og efla vísindasamstarf ríkjanna. Þá er einnig undirstrikaður sameiginlegur vilji til að stuðla að frekari þróun endurnýjanlegrar orku sem styðji við alþjóðleg umskipti yfir í græna orku.

Er einnig horft til mögulegs samstarfs um kolefnisförgun og -geymslu. 

Bahlil Lahadalia orku- og jarðefnaauðlindaráðherra, Eniya Listiani Dewi ráðuneytisstjóri í …
Bahlil Lahadalia orku- og jarðefnaauðlindaráðherra, Eniya Listiani Dewi ráðuneytisstjóri í orku- og jarðefnaauðlindaráðuneyti Indónesíu og Stefán Haukur Jóhannesson sendiherra Íslands gagnvart Indónesíu Ljósmynd/Stjórnarráðið

Áframhaldandi þekkingaruppbygging

Síðan 1982 hefur Jarðhitaskóli GRÓ tekið á móti 50 nemum frá Indónesíu, sem margir starfa hjá stærstu orkufyrirtækjum landsins, verður samstarf ríkjanna hvað varðar þekkingaruppbyggingu áframhaldandi.

Stefán Haukur Jóhannesson, sendiherra Íslands gagnvart Indónesíu, undirritaði yfirlýsinguna fyrir hönd Íslands, en umhverfis-, orku og loftslagsráðuneytið ber ábyrgð á framkvæmd samstarfsins fyrir hönd Íslands.

Fulltrúar átta íslenskra fyrirtækja sækja nú jarðhitaþinginu, en þátttaka þeirra var skipulögð í samstarfi við Íslandsstofu og sendiráð Íslands í Tókýó.

Sendiherra Íslands fundaði einnig með Bahlil Lahadalia, orku- og jarðefnaauðlindaráðherra Indónesíu, og Pahala Mansyurc, varautanríkisráðherra Indónesíu, í tengslum við þátttöku Íslands á jarðhitaþinginu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka