Of margir nemendur og ákall um hæft starfsfólk

Ellefu börnum var synjað um skólavist í Klettaskóla.
Ellefu börnum var synjað um skólavist í Klettaskóla. mbl.is/Hari

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, telur mikilvægt að sveitarfélögin bregðist við þeirri stöðu sem upp er komin varðandi skólavistun fatlaðra barna í sérskólum. Hann nefnir að lausnin til lengri tíma geti m.a. falist í því að stofna fleiri sérskóla eða stíga fastar inn í skólakerfið með ólíkum kerfum eða samstarfi milli kerfa.

Þetta kom fram í máli hans í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag. 

Dagbjört Hákonardóttir, þingkona Samfylkingarinnar, spurði ráðherrann út í málefnið.

Nú liggur fyrir að 11 börnum var synjað um skólavist í skólanum í haust og munu því að óbreyttu fara í almenna skóla. Húsnæði Klettaskóla var upphaflega byggt fyrir 70–90 nemendur en þar eru nú um 140 nemendur með þroskahömlun og fjölfötlun. Húsnæði skólans hefur því í mörg ár verið of lítið. Það er sömuleiðis ákall um að hæft starfsfólk fáist til starfa. Þetta er líka staðan í Arnarskóla, sem er sjálfstæður skóli fyrir fötluð börn sem þarf líka að synja umsækjendum um skólavist,“ sagði Dagbjört.

Dagbjörg Hákonardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar.
Dagbjörg Hákonardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Hákon

Bað um álit ráðherra

Hún spurði hvort ráðuneytið hefði fylgst með gangi mála og ef svo væri óskaði hún eftir hans áliti á hvers vegna þetta væri staðan í dag.

Hvaða leiðir eru færar og tækar að mati hæstvirts ráðherra til að tryggja öllum börnum á þessu landi lögbundna menntun og eftir atvikum heilbrigðisþjónustu við hæfi?“ spurði Dagbjört.

Hún kvaðst meðvituð um að málefni grunnskóla væri á herðum sveitarfélaga en að heilbrigðisþjónustan væri það þó ekki. „[O]g ráðherra ætti að láta málið sig varða, sérstaklega þegar um er að ræða hagsmuni okkar viðkvæmasta hóps í samfélaginu.

Mikilvægt að bregðast við

Ásmundur Einar þakkaði þingmanninum fyrir að vekja athygli á málefninu og tók undir mikilvægi þess. Hann sagði ráðuneytið hafa fylgst með þróuninni og að málefnið væri líka ríkisvaldsins þó svo að það væri á hendi sveitarfélaganna.

Það liggur hins vegar ljóst fyrir að þetta skólastig er hjá sveitarfélögunum og mikilvægt að þau bregðist við. Við höfum fengið fregnir af því að þau séu að vinna í því. Hins vegar þurfum við líka í öllu sem við gerum að skoða hvort lausnin til lengri tíma sé sú að stofna fleiri sérskóla eða að stíga fastar inn í skólakerfið með ólíkum kerfum og samstarfi milli kerfa. Ég er þeirrar skoðunar að til lengri tíma sé það lausnin sem eigi að vinna að,“ sagði ráðherrann.

Háttvirtur þingmaður nefnir heilbrigðiskerfið sérstaklega. Við erum með á þingmálaskrá núna í vetur lög um inngildandi menntun og skólaþjónustu þar sem við erum í umtalsverðu samtali við heilbrigðiskerfið, m.a. um það hvernig aðkoma þess verður að skólastarfi, þjónustu við skólana o.s.frv. Það er mikilvægt að bregðast við með þessum tvíþætta hætti.

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra.
Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Vandinn áberandi

Dagbjört þakkaði Ásmundi Einari svarið en ítrekaði þó spurningu sína um mat ráðherrans á því hvað væri að valda þeirri stöðu sem upp væri komin.

Hvers vegna stöndum við frammi fyrir þessum vanda núna með svona áberandi hætti? Það er einhver skörp fjölgun í umsóknum í sérskólana sem við höfum ekki fullar skýringar á og ég tel að hæstvirtur ráðherra hljóti að hafa upplýsingar sem ég hef ekki um það. Það er nefnilega ekki erfitt að reikna dæmið til enda,“ sagði Dagbjört.

„Belgja út velferðarkerfið“

Þá vísaði hún í orð fjármálaráðherrans sem talaði um að velferð væri ekki gefin. 

Það er alveg hárrétt og ég held að við hljótum öll að sjá að ásakanir um að við séum hér að belgja út velferðarkerfi þegar við gerum þá einföldu kröfu að hér sé börnum veitt lögbundin þjónusta á sviði menntunar, lögbundin heilbrigðisþjónusta — þá erum við að biðja um afskaplega málefnalega hluti,“ sagði Dagbjört og hélt áfram:

„Ég vil því athuga hvort hæstvirtur ráðherra sé sammála því að þetta sé til marks um það að við séum að belgja út kerfi og hvort umræður um ábata í kerfi hafi ekki beint að gera með þær aðkallandi myndir sem við sjáum um skort, til dæmis á NPA-þjónustu, sem við sáum í fréttum í gær.

Þróunin sjáanleg í framhaldsskólum og grunnskólum

Ásmundur sagði marga samverkandi þætti að baki þessari þróun, sem væri m.a. sjáanleg í framhalds- og grunnskólakerfinu.

Við þurfum að stíga fyrr inn með ólík kerfi, aðstoða skólana við að takast á við það að sinna ólíkum nemendum og finna þeim ólíkan farveg. Til þess þarf ólík kerfi inn í skólana, til þess að aðstoða við það.

Til þess að það gerist þurfa ólík kerfi að stíga fyrr inn og það er meginlínan í nýjum lögum, um inngildandi menntun og skólaþjónustu, sem eru á dagskrá hér á þessu haustþingi. Það þarf að grípa þannig inn í hlutina að börnin þurfi ekki í sama mæli þyngri þjónustu eins og er að birtast okkur, m.a. þarna og í framhaldsskólakerfinu. En við þurfum líka að eiga samtal um það hvort við þurfum meiri samvinnu á milli sveitarfélaganna þegar kemur að rekstri þyngri úrræða. Og við erum m.a. í því eins og til að mynda í málefnum barna með fjölþættan vanda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert