Rannsóknin skýrist með hverjum degi

Maðurinn var handtekinn við Krýsuvíkurveg.
Maðurinn var handtekinn við Krýsuvíkurveg. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn miðlægrar rannsóknardeildar, segir rannsókn lögreglu á andláti tíu ára stúlku skýrast með hverjum deginum.

Lögreglan yfirheyrði í gær Sigurð Fannar Þórsson, manninn sem grunaður er um að hafa banað dóttur sinni. Er hann enn sá eini sem er með stöðu sakbornings í málinu.

Hann var handtekinn á vettvangi þar sem stúlkan fannst.

Munu hugsanlega ekki greina frá niðurstöðunum

„Þetta skýrist alltaf með hverjum deginum og hverri lögregluaðgerðinni sem framkvæmd er,“ segir Grímur, spurður hvort lögregla sé nú með skýrari mynd af atburðinum í kjölfar yfirheyrslunnar.

Maðurinn er ekki talinn hafa verið undir áhrifum er stúlkunni var banað en sýni úr honum voru send til rannsóknar. Hafa niðurstöður ekki borist enn en Grímur ítrekar að ekki sé víst að lögregla upplýsi um niðurstöðurnar.

Engar staðreyndir til að byggja á

Sögusagnir hafa verið á kreiki um að manndrápið tengist skipulagðri glæpastarfsemi á Íslandi. Spurður út í þær sögusagnir og hvort lögregla telji einhvern fót fyrir þeim segir Grímur: „Við höfum ekki neinar staðreyndir til að byggja á.“

Grímur svaraði líka spurningum er varða sögusagnirnar í gær og sagði þá að ef fólk teldi sig vera með „konkret“ upplýsingar um málið þá ætti það að setja sig í samband við lögreglu.

Aðspurður segir hann engar slíkar ábendingar hafa borist.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert