Reisa 160 íbúðir fyrir 60 ára og eldri

Ingvi Jónasson framkvæmdastjóri Klasa, Halldór Benjamín Þorbergsson forstjóri Heima og …
Ingvi Jónasson framkvæmdastjóri Klasa, Halldór Benjamín Þorbergsson forstjóri Heima og Gísli Páll Pálsson stjórnarformaður Grundar við undirritunina í dag. Ljósmynd/Aðsend

Grundarheimilin munu að undangengnum samningaviðræðum við opinbera aðila reka 100 hjúkrunarrými og allt að 160 íbúðir fyrir 60 ára og eldri í nýjasta hverfi borgarinnar sem nú rís á Borgarhöfða. Skrifað var undir viljayfirlýsingu þess efnis í dag.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Grundarheimilunum en þar segir sömuleiðis að starfsemin verið hluti af uppbyggingu á samfélagi eldri borgara, eða svokölluðum lífsgæðakjarna sem reistur verður á Borgarhöfðanum.

Staðsetningin þykir kjörinn

Grundarheimilin munu standa í uppbyggingunni í samstarfi við Klasa þróunarfélag og fasteignafélagið Heima en fyrirkomulag, uppbygging og rekstur þessa nýja kjarna verður með áþekkum hætti og kjarna sem Grund rekur í dag í Mörkinni við Suðurlandsbraut 58 – 70.

„Borgarhöfðinn þykir kjörinn fyrir starfsemi sem þessa vegna miðlægrar staðsetningar á höfuðborgarsvæðinu og annarrar uppbyggingar sem er í vændum í þessum nýja borgarhluta sem gerir ráð fyrir öllum aldurshópum. Stutt er í fjölbreytta útivistarmöguleika, öll helsta þjónusta verður aðgengileg í göngufjarlægð og mikið verður lagt upp úr greiðum samgöngum við önnur hverfi,“ segir í tilkynningunni.

Ýmis stoðþjónusta og önnur þjónusta kemur til með að fylja lífsgæðakjarnanum en markmið er að byggja upp þjónustumiðstöð sem þjóni öllum íbúum kjarnans. 

Horft yfir Borgarhöfða.
Horft yfir Borgarhöfða. Ljósmynd/Aðsend

Gætu flutt inn 2027 eða 2028

Einnig er stefnt að opnun líkamsræktarstöðvar sem þjónað geti öllum íbúum Borgarhöfðans og þá kemur til greina að koma fyrir annarri heilsutengdri þjónustu í kjarnanum auk þess sem skoðað verður hvort heilsugæslustöð gæti orðið hluti af verkefninu.

Gert er ráð fyrir að íbúar þessa nýja borgarhluta geti verið í kringum fimmtán þúsund talsins en stefnt er að því að fyrstu íbúar lífsgæðakjarnans geti flutt inn árið 2027 eða 2028.

Það er þó með þeim fyrirvara að samningar náist við hið opinbera um rekstur hjúkrunarheimilisins og að lokið verði við samningsgerðina í kjölfar viljayfirlýsingarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert