Veitir nýja sýn á landnám og forfeður

Umfangsmiklar og vel heppnaðar formleifarannsóknir á Austfjörðum varpa nýju ljósi á landnám þar eystra og mögulega á Íslandi. Greinilegt er að mikið hefur verið umleikis bæði á bænum Firði og í Stöð. Ríkidæmi virðist hafa verið mikið í Firði sem var bær landnámsmannsins Bjólfs.

Fínsmíði úr bronsi og mögulega silfri hefur verið stunduð í Firði en deiglur hafa fundist sem benda til þessa. Deiglur voru notaðar til að bræða í málma. Þá hafa leirkerabrot frá víkingaöld vakið upp áhugaverðar spurningar um tengingar við Orkneyjar og Hjaltlandseyjar. Þau leirkerabrot sem hafa fundist í Firði er ekki hægt að rekja til sunnanverðrar Skandinavíu og benda frekar til fyrrnefndra eyja norður af Skotlandi.

Breytt sýn á forfeður okkar

Ragnheiður Traustadóttir sem stýrir rannsóknum á þeim gripum sem fundist hafa í Firði segir taka þrjú til fjögur ár að fá niðurstöður varðandi þá muni sem grafnir hafa verið upp. Þar eru margar mjög spennandi spurningar uppi.

Eins og fram hefur komið á mbl.is í þessari viku fannst gler frá víkingaöld við uppgröftinn og þau leirkerabrot sem nefnd eru hér að ofan þykja einnig mjög spennandi. Þá eru textílsérfræðingar mjög spenntir vegna fataleifa sem fundust í kumli frá víkingaöld.

Ragnheiður tekur undir að þessar fornleifarannsóknir og þær niðurstöður sem þegar er hægt að tala um geti leitt til breyttrar sýnar á forfeður okkar sem námu land hér fyrir og eftir árið 900.

Niðurstöður munu vekja jafnvel upp fleiri spurningar

Miklar rannsóknir, svo sem aldursgreiningar, efnagreiningar og samanburður við fyrri rannsóknir taka nú við. Sú vinna tekur þrjú til fjögur ár en að henni lokinni munu liggja fyrir einhver svör varðandi gripi og uppruna. Jafnvel munu þær niðurstöður leiða til enn fleiri spurninga.

Þátturinn með Ragnheiði Traustadóttur um fornleifarannsóknir í Firði í Seyðisfirði er aðgengilegur í heild sinni fyrir áskrifendur Morgunblaðsins.

Fornleifafræðingar við uppgraftrarsvæðið í Firði.
Fornleifafræðingar við uppgraftrarsvæðið í Firði. mbl.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert