Birtu ekki dóm yfir fyrrverandi forseta bæjarstjórnar

Héraðsdómur Norðurlands eystra.
Héraðsdómur Norðurlands eystra. mbl.is/Þorsteinn

Dómstjóri við Héraðsdóm Norðurlands eystra ákvað að birta ekki dóm í fjárdráttarmáli fyrrverandi forseta bæjarstjórnar Fjallabyggðar og skrifstofustjóra Afls sparisjóðs á Siglufirði sem féll fyrir fjórum árum. Þar sem dómurinn birtist aldrei á vefsíðu dómstóla var aldrei greint frá niðurstöðu dómsins þar sem hann fór alveg fram hjá fjölmiðlum, sem þó höfðu fjallað ítarlega um málið mánuðina og árin áður.

Í málinu var Magnús Stefán Jónasson, fyrrverandi skrifstofustjóri Afls sparisjóðs, ákærður fyrir að hafa dregið sér og verktakafyrirtæki samtals 85 milljónir, auk annarra brota. Hann játaði brot sín fyrir dómi, en helst var tekist á um lagaatriði og viðurlög í aðalmeðferð málsins sem átti sér stað í lok febrúar árið 2020.

Hlaut tveggja ára dóm 

Ólafur Hauksson, héraðssaksóknari og saksóknari málsins, fór fram á tveggja ára refsingu yfir Magnúsi og féllst Héraðsdómur Norðurlands eystra á þá kröfu og dæmdi hann í tveggja ára fangelsi, en þar af var 21 mánuður af 24 skilorðsbundinn. Þá var Magnúsi jafnframt gert að sæta upptöku á rúmum 7,6 milljónum sem var ráðstafað upp í skaðabótakröfu Arion banka, en Arion hafði tekið yfir Afl sparisjóð. Þá var félaginu Bási ehf., einnig gert að sæta upptöku á rúmum 4,5 milljónum króna sem saksóknari hafði haldlagt við meðferð málsins.

Blaðamaður rakst á gamla frétt um málið við skoðun á alls óskyldu máli og rak ekki minni til þess að fjallað hefði verið um niðurstöðu málsins. Eftir að hafa gert ítarlega leit á bæði vef Héraðsdóms Norðurlands eystra og á vef Landsréttar, þangað sem málið hefði ratað ef því hefði verið áfrýjað, kom í ljós að enginn dómur hafði verið birtur.

Ákvörðun dómstjóra að birta ekki dóminn

Þegar leitað var eftir svörum frá héraðsdómstólnum fengust þau svör að dómstjórinn hefði ákveðið að birta ekki dóminn. „Það var ákvörðun þáverandi dómstjóra að dómurinn yrði ekki birtur á vefsíðu dómstólsins.“ Saksóknari málsins hefur nú staðfest niðurstöðu þess við mbl.is og hver dómur Magnúsar var.

Sparisjóðurinn AFL á Siglufirði.
Sparisjóðurinn AFL á Siglufirði.

Upphaflega voru fimm með stöðu sakbornings í málinu, en mál gegn fjórum þeirra var fellt niður. Eftir stóð málið gegn Magnúsi. Hann var að lokum ákærður og féll dómur sem fyrr segir í júní 2020.

mbl.is óskaði á þriðjudaginn eftir að fá dóminn afhendan og fékk þau svör að málið væri í skoðun hjá dómstjóra, en nú er það Arnbjörg Sigurðardóttir.

Uppfært: Í upphaflegri frétt kom fram að dómstjóri á því ári sem dómurinn féll hefði verið Halldór Björnsson. Rétt er hins vegar að hann var í leyfi þegar umrædd ákvörðun var tekin og hefur fréttin verið uppfærð samkvæmt því.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert