Enginn þóttist hafa ekið bílnum

Lögreglan að störfum.
Lögreglan að störfum. mbl.is/Eggert

Bifreið var stöðvuð í akstri við almennt umferðareftirlit hjá lögreglustöð 4 sem sinnir verkefnum í Grafarvogi, Mosfellsbæ og Árbæ.

Fjórir voru í bifreiðinni og kvaðst enginn þeirra kannast við að hafa ekið henni. Þegar lögreglan kom að bifreiðinni og ætlaði að gefa sig á tal við ökumann sat enginn undir stýri. Allir í bílnum voru handteknir og eru þeir allir m.a. grunaðir um að aka undir áhrifum áfengis og/eða ávana- og fíkniefnum, sölu og dreifingu fíkniefna og vopnalagabrot.

Gekk berserksgang

Óskað var eftir aðstoð lögreglunnar á lögreglustöð 1 á Hverfisgötu vegna einstaklings sem gekk berserksgang. Hann reyndist vera óviðræðuhæfur sökum áhrifa ávana- og fíkniefna. Hann var vistaður í fangaklefa í þágu rannsóknar málsins.

mbl.is/Kristinn Magnússon

Rafskútuslys

Tilkynnt var um umferðarslys í sama umdæmi lögreglunnar þar sem einstaklingur féll af rafskútu. Hann er grunaður um að aka, eða tilraun til að aka, smáfarartæki undir áhrifum áfengis. Hann var fluttur með sjúkrabifreið á sjúkrahús til frekari skoðunar en hann reyndist vera með höfuðáverka, að því er segir í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu vegna verkefna frá klukkan 17 í gær til kl. 5 í morgun. Alls voru 48 mál bókuð í kerfum lögreglunnar á þessu tímabili.

Á 140 km hraða 

Tveir ökumenn bifreiða í Reykjavík voru stöðvaðir og óku þeir báðir talsvert yfir leyfilegum hámarkshraða. Annar var á 139 km hraða þar sem leyfilegur hámarkshraði er 80 km/klst. Hinn ók á 140 km hraða þar sem hámarkshraði er einnig 80 km/klst. Málin voru afgreidd á vettvangi.

Sofandi inni í bíl

Lögreglan í Kópavogi og Breiðholti stöðvaði einstakling sem svaf inni í bifreið. Við nánari skoðun reyndist bifreiðin á röngum skráningarnúmerum.

Bifreið var stöðvuð í akstri og er ökumaður grunaður um akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna í umdæmi lögreglunnar á Vínlandsleið. Einnig er hann grunaður um að aka ítrekað sviptur ökuréttindum. Þá voru skráningarmerki fjarlægð af bifreiðinni þar sem ekki hafði verið staðið skil á vátryggingu. Ökumaðurinn var látinn laus að lokinni blóðsýnatöku.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert