Gera breytingar á Söngvakeppninni

Frá Söngvakeppni sjónvarpsins fyrr á árinu.
Frá Söngvakeppni sjónvarpsins fyrr á árinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Opnað hefur verið fyrir innsetningar í Söngvakeppni sjónvarpsins sem haldin verður næsta vor. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Ríkisútvarpinu.

Eins og áður hefur komið fram hefur RÚV þegar staðfest þátttöku í næstu Eurovision-keppni sem haldin verður í Basel í Sviss á næsta ári en í tilkynningunni segir að framlag Íslands í keppninni verði valið með svipuðum hætti og síðustu ár.

Styttist í frestinn

Tíu lög munu keppa hér heima en öllum gefst kostur á að senda inn lag sem að ráðgefandi valnefnd mun taka til umfjöllunar. Frestur til að senda inn lag rennur út á miðnætti sunnudaginn 13. október.

Þá segir í tilkynningunni að til standi að gera einhverjar breytingar á keppninni.

„[M]eð það að markmiði að stuðla að fjölbreyttari dagskrárgerð en einnig er verið er að skoða breyttar útfærslur á vali á sigurlaginu. Þessi vinna stendur nú yfir og verður nánara fyrirkomulag keppninnar kynnt síðar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert