Hugsanlega verði nýtt met slegið um helgina

Elísabet er annar eigenda Náttúruhlaupa og mótshaldari Bakgarðsins.
Elísabet er annar eigenda Náttúruhlaupa og mótshaldari Bakgarðsins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bakgarðshlaup Náttúruhlaupa verður haldið í Heiðmörk í fimmta skiptið um helgina. Í fyrramálið verða rúmlega 230 keppendur ræstir út í hlaupið en það seldist upp í hlaupið á innan við sólarhring.

Hlaupið virkar þannig að á hverjum klukkutíma hlaupa keppendur 6,7 kílómetra hring. Hver hringur er ræstur út á heila tímanum og ef keppandi er kominn í mark áður en að næsti hringur byrjar má hann nota restina af tímanum til þess að hvílast og undirbúa sig fyrir næsta hring.

Ef keppandinn nær ekki að klára hringinn á klukkutíma er hann fallinn úr keppni.

Sá sem hleypur flesta hringi er sá eini sem klárar hlaupið og stendur uppi sem sigurvegari. Til þess að sigra þarf viðkomandi að klára hringinn einn. 

40% fara hundrað kílómetra eða lengra

Blaðamaður náði tali af Elísabetu Margeirsdóttur hjá Náttúruhlaupum þegar hún var að leggja lokahönd á undirbúninginn fyrir hlaupið. 

Hún segir að mikil spenna ríki fyrir hlaupinu á morgun. 

Elísabet gerir ráð fyrir að um 40% þeirra sem skráðir eru til leiks á morgun stefni á að hlaupa hundrað kílómetra eða lengra. Hundrað kílómetrar eru fimmtán hringir. 

Hún segir að í síðustu keppnum hafi í kringum 50 keppendur farið hundrað kílómetra en að líkur séu á að það met verði slegið í ár. 

Það vakti talsverða athygli í vor þegar þau Mari Järsk, Elísa Kristinsdóttir og Andri Guðmundsson slógu Íslandsmet í Bakgarðinum þegar þau hlupu saman 51 hring eða 341 kílómetra. Þau létu það hins vegar ekki nægja en Andri fór einn hring í viðbót, 52 hringi, Elísa hljóp 56 hringi en Mari bar sigur úr býtum eftir að hafa hlaupið 57 hringi eða 381 kílómetra. 

Mari, Elísa og Andri komu saman í mark.
Mari, Elísa og Andri komu saman í mark. mbl.is/Arnþór Birkisson

Ný andlit fá tækifæri til að skína

Í október fer fram landsliðskeppni í bakgarðinum þar sem 15 manns sem hafa náð sem bestum árangri í bakgarðinum síðustu tvö ár keppast um að vera fulltrúi Íslands á heimsmeistaramótinu í Bakgarðinum sem verður haldið í Tennessee í Bandaríkjunum á næsta ári. 

Elísabet segir að þau sem hafa síðustu ár náð sem lengst í keppninni séu annað hvort ekki skráð í hlaupið á morgun eða noti það sem æfingu fyrir landsliðsmótið. 

„Það er ekki okkar besta fólk að fara lengstu vegalengdirnar í þessari keppni en það þýðir að það verða tækifæri fyrir ný andlit til að skína,“ segir Elísabet.

Mari og Andri eru bæði í landsliðshópnum og eru bæði skráð í hlaupið en þau taka það sem æfingahlaup að sögn Elísabetar. 

„Þó svo að þau séu skráð á þeim forsendum að taka æfingahlaup er ekkert að stoppa þau frá því að halda áfram ef þau vilja. Svo það getur allt gerst.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert