Myndefni borist lögreglu

Lögreglubifreið á vettvangi nærri Vatnsskarði á Sveifluhálsi, norðan Kleifarvatns. Karlmaður …
Lögreglubifreið á vettvangi nærri Vatnsskarði á Sveifluhálsi, norðan Kleifarvatns. Karlmaður er grunaður um að hafa orðið stúlku á grunnskólaaldri að bana. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lögreglu hefur borist myndefni frá veg­far­end­um sem óku um Krýsu­vík­ur­veg, á milli Valla­hverf­is í Hafnar­f­irði og Vig­dís­ar­valla­veg­ar 15. september á milli kl. 13 og 18, sama dag og tíu ára stúlka beið þar bana. Faðir stúlkunnar er grunaður um að hafa banað henni.

Grím­ur Gríms­son, yf­ir­lög­regluþjónn miðlægr­ar rann­sókn­ar­deild­ar, segir að myndefnið sé ekki yfirfarið og getur því ekki sagt til um af hversu miklu gagni það komi. Segir hann ómögulegt að segja hversu langan tíma tekur að yfirfara myndefnið enda ekki enn vitað hversu mikið myndefni hefur eða mun skila sér.

Engar ábendingar borist

Faðir stúlkunnar er ekki tal­inn hafa verið und­ir áhrif­um er stúlk­unni var banað. Niðurstöður úr sýnatöku hafa þó ekki borist.

Sögu­sagn­ir um að mann­drápið teng­ist skipu­lagðri glæp­a­starf­semi á Íslandi hafa verið bornar undir lögreglu sem segir engar staðreyndir um slíkt vera til staðar til að byggja á.

Grímur hvatti almenning til að setja sig í samband við lögreglu hafi það upplýsingar um málið sem það telur að byggja megi á. Eng­ar slík­ar ábend­ing­ar hafa enn borist.

Beiting vopns ekki rædd

Grímur segir að alltaf séu að koma í ljós frekari og betri upplýsingar um aðdraganda og atburðarásina sem leiddi til dauða stúlkunnar en lögregla heldur spilunum þétt að sér og ræðir til að mynda ekki hvort og þá hvaða vopni hafi verið beitt.

Sig­urður Fann­ar Þórsson, faðir stúlkunnar, er sá eini sem er með stöðu sak­born­ings í mál­inu. Grímur segir lítið annað að segja um málið í dag. Því vindi eðlilega fram og sé komið í ákveðið ferli eins og slíkar rannsóknir geri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert