Starfshópur um endurskoðun Menningarnætur

Einar Þorsteinsson.
Einar Þorsteinsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Einar Þorsteinsson borgarstjóri hefur skipað átta manna starfshóp sem á að annast endurskoðun á skipulagi Menningarnætur og Reykjavíkurmaraþons.

Starfshópurinn á að skila af sér tillögum fyrir lok þessa árs.

Formaður hópsins er Eva Bergþóra Guðbergsdóttir, samskiptastjóri Reykjavíkurborgar. Fram kemur í erindisbréfi sem borgarstjóri lagði fram á borgarráðsfundi í gær að sífellt fleiri ungmenni séu í miðborginni þennan dag án eftirlits, auk þess sem áfengisdrykkja þeirra hafi aukist.

„Þessir tveir risaviðburðir hafa dregið að mikinn fjölda fólks í miðborginni. Um leið og talsverð samlegðaráhrif eru af þessum tveimur viðburðum eru merki um að þeir séu farnir að skarast því Menningarnótt er farin að hefjast fyrr á sama tíma og aukin þátttaka í Reykjavíkurmaraþoni veldur því að sértækar lokanir standa lengur yfir en áður sem bæði krefst mikils eftirlits frá viðbragðsaðilum og hefur áhrif á umferð og aðgengi,“ segir í bréfinu.

Reykjavíkurmaraþonið.
Reykjavíkurmaraþonið. mbl.is/Arnþór

„Full ástæða er til að endurskoða skipulagningu beggja viðburða í ljósi þess álags sem það hefur á viðbragðsaðila og starfsfólk borgarinnar að sinna öryggi og eftirliti á tveimur flóknum borgarviðburðum sama sólarhringinn. Þá er nauðsynlegt að fara ofan í skipulag Menningarnætur þar sem hugað verður að því að hún verði örugg fjölskylduhátíð.“

„Komin úr böndunum“

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins á fundinum lagði fram bókun þar sem fram kemur að full ástæða sé til að endurskoða skipulagningu beggja viðburða vegna „þeirra alvarlegu ofbeldistilvika sem átt hafa sér stað á Menningarnótt síðustu ár, nú síðast hnífaárásar sem leiddi til dauða ungrar stúlku“, segir í bókuninni.

Þar segir að mat margra sé án efa það að Menningarnótt sé komin úr böndunum og langt frá því sem hún var hugsuð í upphafi sem fjölskylduhátíð. Fram kemur að best væri ef dagskránni myndi ljúka klukkan 22 og að hætt yrði við flugeldasýninguna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert