77% telja orkuskort yfirvofandi

Yfirgnæfandi stuðningur er við aukna græna raforkuframleiðslu meðal félagsmanna SA.
Yfirgnæfandi stuðningur er við aukna græna raforkuframleiðslu meðal félagsmanna SA. mbl.is/Sigurður Bogi

Alls eru 77% félagsmanna Samtaka atvinnulífsins sammála eða frekar sammála spá Landsnets um yfirvofandi orkuskort í landinu, en um fimmtungur er því ósammála eða frekar ósammála. 68% þeirra töldu hins vegar orkuskort ríkja í landinu nú þegar.

Þetta er niðurstaða könnunar sem Gallup gerði fyrir SA og kynnt var á ársfundi samtakanna sem haldinn var fyrr í vikunni.

Úrtakið náði til 1.754 félagsmanna, 414 tóku þátt í könnuninni og var svarhlutfall því 23,6%.

Meirihlutinn telur sig vel upplýstan um orkumál

Í könnuninni var spurt hvort félagsmenn væru sammála eða ósammála þeirri fullyrðingu að orkuskortur væri nú þegar ríkjandi á Íslandi og voru sem fyrr segir 68% þeirra sammála því, en 18% ósammála.

14% aðspurðra voru hvorki sammála né ósammála þeirri fullyrðingu. Þá taldi 61% svarenda sig vel eða mjög vel upplýst um stöðu orkumála í landinu, en einungis 13% kváðu svo ekki vera.

Alls var 91% félagsmanna SA hlynnt aukinni grænni orkuframleiðslu í landinu, en þegar spurt var af hverju þeir teldu það mikilvægt, sögðu 75% þeirra að svo væri til að tryggja tækifæri til verðmætasköpunar, 70% til að halda orkuverði lágu, 65% til að draga úr innflutningi jarðefnaeldsneytis, 59% til að stuðla að orkuskiptum, en 52% til að draga úr losun koldíoxíðs.

Umfjöllunina má lesa í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka