Dagurinn í ár markar ákveðin tímamót

Lífræni dagurinn er nú haldinn í þriðja sinn.
Lífræni dagurinn er nú haldinn í þriðja sinn. Ljósmynd/Aðsend

Lífræni dagurinn verður haldinn hátíðlegur í þriðja sinn í dag en í tilkynningu frá skipuleggjendum kemur fram að dagurinn í ár marki ákveðin tímamót fyrir lífræna ræktun og framleiðslu á Íslandi þar sem aðgerðaáætlun um eflingu lífrænnar framleiðslu sé nýkomin út hjá matvælaráðuneytinu.

Í tilefni dagsins opna nokkur lífræn býli um allt land dyr sínar fyrir gestum en þar munu þeir geta séð, smakkað og lært hvað lífrænir bændur eru að vinna að.

Býlin sem hægt er að heimsækja milli klukkan 11 og 15 eru Yrkja í Syðra-Holti í Svarvaðadal, garðyrkjustöðin Sólbakki að Ósum í Hörgársveit, Móðir jörð að Vallanesi á Egilsstöðum og kúabýlið Búland á Hvolsvelli.

Röð fyrirlestra í Elliðaárdalnum

Einn viðburður verður á höfuðborgarsvæðinu á Á Bístró í Elliðaárdal. Staðurinn mun í dag, í samstarfi við Lífrænt Ísland og VOR, bjóða upp á rétti byggða nær alfarið á lífrænum íslenskum hráefnum

Þar að auki verður á staðnum hægt að hlýða á röð fyrirlestra tengdum lífrænni ræktun og framleiðslu.

Elínborg Erla Ásgeirsdóttir, formaður VOR, verður fundarstjóri, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir matvælaráðherra kynnir nýútkomna aðgerðaáætlun um eflingu lífrænnar framleiðslu á Íslandi.

Ingólfur Guðnason, brautarstjóri hjá Landbúnaðarháskólanum, Anna María Björnsdóttir verkefnastjóri Lífræna dagsins og Gunnar Bjarnason kartöflubóndi halda erindi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert