Í samtali við löngu látið fólk

„Ég er kannski með eins konar þráhyggju fyrir því að …
„Ég er kannski með eins konar þráhyggju fyrir því að skrásetja líf mitt með myndavél og hef gert alls kyns dagbókarverkefni í gegnum tíðina,“ segir Einar Falur Ingólfsson. mbl.is/Ásdís

Í stofunni hjá Einari Fal Ingólfssyni og Ingibjörgu Jóhannsdóttur eiginkonu hans eru listaverk og ljósmyndir uppi um alla veggi og bækur í öllum hillum. Ljóst er að líf og störf Einars snúast um bókmenntir og listir, en hann blandar gjarnan saman texta og mynd. Myndavélina notar hann til að skrásetja það sem fyrir augun ber og fer hann gjarnan á sömu staði aftur og aftur, því tíminn spilar stórt hlutverk í verkum hans. Einar setur gjarnan verk sín fram í dagbókarformi og kallast þá jafnvel á við löngu dáið fólk. Nýjasta verk hans nefnist Útlit loptsins – Veðurdagbók en sýning með verkunum verður opnuð í Listasafninu á Akureyri um næstu helgi. Samhliða sýningunni gefur Einar út veglega bók þar sem veðurathuganir eru í fyrirrúmi.

Himinninn klukkan tólf á hádegi

Verkefnið Útlit loptsins hófst fyrir tveimur árum þegar Einar Falur fékk boð um að taka þátt í myndlistarverkefni sem snýst um veður og veðurfarsbreytingar víða um heim. Einar ákvað að vinna með veður og tíma, en tíminn hefur áður komið við sögu í verkum hans.

„Grunnverkið var þessi dagbók mín. Ég er kannski með eins konar þráhyggju fyrir því að skrásetja líf mitt með myndavél og hef gert alls kyns dagbókarverkefni í gegnum tíðina. Ég ákvað að halda dagbók sem fjallaði um veðrið og um leið að taka upp gamalt fyrirbæri, veðurdagbók, sem margir á Íslandi hafa haldið í gegnum aldirnar. Fyrsti alvöru íslenski veðurskrásetjarinn var Árni Thorlacius, kaupmaður í Stykkishólmi, oft kenndur við Norska húsið sem nú er byggðasafnið. Hann var útgerðarmaður og aðalmaðurinn í plássinu, en hann byrjaði að halda veðurdagbók árið 1845 og hélt hana hátt í fjóra áratugi,“ segir Einar og útskýrir að Árni hafi farið upp á Bókhlöðuhöfða sex sinnum á dag þar sem hann gáði til veðurs.

“Hann skrásetti veðrið vísindalega með bestu mælitækjum þess tíma og skráði hitastig, loftþrýsting, úrkomu, vindstyrk og vindátt en í síðasta dálknum í færslum var mat hans á veðrinu. Árni lýsir þá skýjafarinu og himninum og notar falleg orð eins og heiðbjartur, þykkur og dimmur og hálfheiður. Ég ákvað í dagbók minni að kallast á við Árna,“ segir Einar.

„Ég fór alltaf út um tólf á hádegi, hvar sem ég var staddur, og tók mynd af himninum. Síðan setti ég inn veðurupplýsingar frá Veðurstofunni, en einnig skrásetningu Árna 170 árum fyrr. Þetta gerði ég í heilt ár.“

Tíminn bæði hringlaga og lína

Í fyrri verkum sínum, sem og þessari veðurdagbók, vinnur Einar Falur með tímann og fer þá gjarnan aftur á sömu staði, myndar sama mótíf frá sama bletti, til að geta rannsakað þær breytingar sem hafa orðið með tímanum.

„Tíminn er vissulega bæði hringlaga og lína sem fer áfram,“ segir Einar og útskýrir að segja mætti að árstíðirnar fari í hringi.

„Ég er auðvitað nútímamaður og því er mín tímalína mjög ólík Árna, sem var alltaf í Hólminum. Ég er einn daginn í Stykkishólmi og daginn eftir er ég kominn til Finnlands eða New York. Ég notaði alltaf þann stað þar sem ég var staddur. Eins og dagbókin sýnir fer ég víða og margar myndanna eru líka portrett eða mannamyndir og fór það eftir því hver var með mér klukkan tólf á hádegi,“ segir Einar, en fleiri verkefni vann hann þetta ár sem lutu svipuðum lögmálum.

Svo ertu líka alltaf að kallast á við löngu látna menn.

„Já, það er mjög athyglisverður punktur sem ég hef lengi klórað mér í hausnum yfir,“ segir Einar.

„Í mjög langan tíma hafa helstu samstarfsmenn mínir í myndlistinni verið látið fólk! Það getur verið erfitt að fá „konkret“ svör frá þeim,“ segir Einar og brosir út í annað.

Fyrstur til að lesa Moggann

Bakgrunn Einars Fals í blaðamennsku og ljósmyndun og áhugann á bókmenntum og sagnfræði hefur hann nú sameinað í list sinni. Einar segist snemma hafa fengið óbilandi áhuga á fréttum.

„Ég var með algjöra ástríðu fyrir dagblöðum frá því að ég var lítill strákur og vaknaði á undan foreldrum mínum til að ná Mogganum fyrstur. Ég kynntist svo göldrum ljósmyndavélarinnar og myrkraherbergisins um tíu, ellefu ára,“ segir Einar og segist hafa eytt ómældum stundum í myrkrakompu skólans þar sem hann hafði óheftan aðgang.

„Ég fór í starfskynningu á Moggann þegar ég var fimmtán og átti að vera þrjá daga á ljósmyndadeildinni. Ég var mjög spenntur að fá að vera nálægt hetjunum mínum, „gamla kallinum“, sem mér þá fannst, Ragnari Axelssyni, en ég dýrkaði myndir hans sem unglingur og einnig leit ég mjög upp til Ólafs K. Magnússonar. Ég fékk svo líka að fylgja eftir blaðamönnum og fór meðal annars á blaðamannafund fyrsta daginn þar sem Ragnar í Smára og Halldór Laxness voru að kynna Söguna af brauðinu dýra,“ segir Einar, sem hafði lesið allar bækur Laxness fyrir fermingu en viðurkennir fúslega að margt í þeim hafi farið fyrir ofan garð og neðan hjá honum.

„Ég var með algjöra ástríðu fyrir dagblöðum frá því að …
„Ég var með algjöra ástríðu fyrir dagblöðum frá því að ég var lítill strákur og vaknaði á undan foreldrum mínum til að ná Mogganum fyrstur,“ segir Einar Falur sem hefur unnið fyrir Morgunblaðið í áratugi. mbl.is/Ásdís

„Ég hafði reyndar hitt Halldór Laxness áður, þegar ég tók með vinum mínum við hann viðtal fyrir skólablaðið í Keflavík þegar ég var fjórtán ára og myndaði hann líka,“ segir Einar, sem greinilega var nokkuð óvenjulegur unglingur.

„Nörd“ er orðið sem hann notar sjálfur.

„Eftir þrjá daga á Mogganum var mér boðið að vera lengur, skrifa einhverjar fréttir og mynda,“ segir Einar og var honum í kjölfarið boðið að taka við af föður sínum sem fréttaritari, sem hann þáði.

„Það gat verið flókið, því ég var ekki með bílpróf og þurfti oft að fara á puttanum og ekki batnaði það þegar Grindavík var bætt á mig,“ segir Einar og brosir.

Nóg var að gera hjá unga manninum, sem flakkaði á milli Keflavíkur og Reykjavíkur með filmur, flutti fréttir af Suðurnesjum, myndaði allt sjálfur og framkallaði.

„Þannig að ég er búinn að vera tengdur blaðinu mjög lengi. Ég var ekki orðinn stúdent þegar ég gerðist sumarstarfsmaður á ljósmyndadeildinni,“ segir Einar, sem síðar gerðist þar fullgildur ljósmyndari, lærði síðan bókmenntafræði, flutti til New York í meistaranám í ljósmyndun og kom svo aftur á Moggann í glænýtt starf sem myndstjóri. Einar endaði svo feril sinn á Morgunblaðinu sem umsjónarmaður menningarefnisins sem að sjálfsögðu tók myndir líka.

Kallast á við tímann

Ljóst er að Einar Falur hefur nóg fyrir stafni að sinna listinni á sinn einstaka hátt. Ýmislegt er á döfinni; fyrst sýningin í Listasafninu á Akureyri Útlit loptsins sem verður opnuð næstu helgi og stendur fram í janúar, auk útgáfu bókar með sama titli. Hann segist reyna að vera agaður í vinnu sinni.

Hér má líta eitt verka Einars Fals úr dagbókarverkinu Útlit …
Hér má líta eitt verka Einars Fals úr dagbókarverkinu Útlit loptins en sýning opnar um næstu helgi á Akureyri.

„Þegar ég var í fastri vinnu reyndi ég að vinna alltaf að lágmarki tvo tíma á kvöldin að mínum eigin verkefnum. En þú frumskapar aldrei gæði í aukavinnu og því gera listamannalaun, ef maður er svo heppinn að fá þau með góðri umsókn, manni kleift að einbeita sér að listinni. Það græða allir á því; án listamannalauna væri íslensk menning svo sannarlega deyfðarlegri og einsleitari en hún er,“ segir hann.

Og eftir opnun sýningar Einars um veðrið á Akureyri um næstu helgi stekkur hann aftur af stað.

„Ég fer beint til Varanasi að vinna, á þann töfrandi stað þar sem allt er nú í blóma eftir monsúnrigningarnar. Þar ætla ég að skrifa textann fyrir bókina með samstarfsverki okkar Sigfúsar Eymundssonar auk þess að vinna í bók sem ég hef verið á kafi í, ritstýri og skrifa að mestu, um Kristján H. Magnússon listmálara sem lést ungur, aðeins 34 ára gamall, árið 1937. En á Indlandi nýt ég þess að vera þátttakandi í einstökum mannlífssirkusnum. Landið er ein ögrandi óreiða og mér finnst það heillandi,“ segir hann.

„Þar er ég líka í samtali við það sem er liðið. Í ljósmyndun minni er ég alltaf að reyna að tengja við liðna tíma og söguna og virkja hana upp á nýtt. Ég er einhvern veginn endalaust að kallast á við tímann.“

Ítarlegt viðtal er við Einar Fal í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert