Jón sækist eftir áhrifum en Inga vill Bjarna áfram

Sá stjórnmálamaður sem sækist ekki eftir frekari áhrifum er aumur í sínu að mati Jóns Gunnarssonar, alþingismaður Sjálfstæðisflokksins og fyrrum dómsmálaráðherra. Þetta segir hann þegar hann er spurður hvort hann íhugi formannsframboð í Sjálfstæðisflokknum.

Jón er gestur Stefáns Einars í Spursmálum að þessu sinni ásamt Ingu Sæland, formanni Flokks fólksins.

Inga Sæland er hins vegar afdráttarlaus með það að hún telur engan geta reist Sjálfstæðisflokkinn úr rústum nema Bjarna Benediktsson, formann flokksins til síðustu 15 ára.

Samtalið um þetta má sjá í spilaranum hér að ofan en einnig eru þau rakin í textanum sem hér fer á eftir.

Flokkurinn ræður för

„Ég hef í öllum prófkjörum, í þessi 18 ár sem ég er búinn að vera tæp, í öllum prófkjörum, í öllum kosningum hef ég sóst eftir því að fá meiri völd og ég held að það sé aumur pólitíkus sem er ekki til í að vera í pólitík og axla þá ábyrgð sem flokkurinn kýs að veita honum. Og það kemur bara í ljós hvað flokkurinn vill í því.“

Og muntu þá leggja þitt nafn í pottinn.

„Ja, það kemur bara í ljós.“

Inga, af því að þú ert með spádómskúluna sem ég áður nefndi. Hver heldur þú að verði næsti formaður Sjálfstæðisflokksins?

„Ég hef bara ekki græna glóru.“

Þú veist það víst.

„Ég er ekki að sjá neinn geta reist Sjálfstæðisflokkinn úr þessum vanda sem hann er í núna nema sjálfan Bjarna Benediktsson. Ég sé engan öflugri formann Sjálfstæðisflokksins en einmitt Bjarna Benediktsson. Þannig að ég held að þetta samstarf þeirra með þessum kommúnistum í sjö ár sé sú blóðtaka sem Sjálfstæðisflokkurinn er einmitt að lenda í núna. En það er enginn annar sem getur, að mínu viti, sem getur reist Fönix úr öskunni annar en Bjarni Benediktsson.“

Nokkuð skarst í odda milli Ingu Sæland og Jóns Gunnarssonar …
Nokkuð skarst í odda milli Ingu Sæland og Jóns Gunnarssonar þegar farið var yfir fréttir vikunnar í Spursmálum. mbl.is/María Matthíasdóttir

Kaldar kveðjur

Þetta eru kaldar kveðjur til þín, Jón.

„Já, já. Þetta eru það.“

Ég hélt hún væri vinkona þín.

„Ja, Inga siglir nú eins og hún siglir,“ segir Jón.

„Stolt siglir fleyið mitt, stórsjónum á,“ skýtur Inga inn í.

„Og fer mikinn og hvað hafa menn kallað þetta, svona popúlista-pólitík er svona svolítið að láta seglin draga sig...“ bætir Jón við.

„Ekki tala við mig um popúlisma eftir mánudaginn. Í guðs bænum. Talandi um popúlisma. Ég tek ekki þátt í því nema ég get sungið Tinu Turner og verið poppari,“ segir Inga að lokum.

Viðtalið við Ingu Sæland og Jón Gunnarsson má sjá og heyra í heild sinni í spilaranum hér að neðan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert