Leikfangabyssumálið leyst á staðnum

Frá aðgerðum lögreglu í gær.
Frá aðgerðum lögreglu í gær. Samsett mynd/Aðsend

Viðbúnaður lögreglu á gatnamótum Sæbrautar og Frakkastígs í gærkvöldi var vegna leikfangabyssu. Þetta staðfestir Ásgeir Þór Ásgeirsson aðstoðarlögreglustjóri í samtali við mbl.is.

Í gærkvöldi greindi mbl.is frá aðgerðum lögreglu en að sögn sjón­ar­votts stöðvaði lög­regla bif­reið og voru þrír ung­ir menn látn­ir stíga út á meðan vopnaðir lög­reglu­menn leituðu í öku­tæk­inu. Minnst þrjár lögreglubifreiðar voru á vettvangi.

Enginn handtekinn

Í dagbók lögreglu í morgun var svo greint frá því að lögregla hafi verið með mikinn viðbúnað vegna tilkynningar um loftbyssu sem síðar reyndist leikfangabyssa. Ásgeir segir að um sama mál sé að ræða.

„Málið var bara leyst þarna á staðnum og þeir voru ekki handteknir né færðir á stöð,“ segir Ásgeir aðspurður hvort einhverjir eftirmálar verði að málinu fyrir hluteigandi.

Þá segir hann að hinn mikli viðbúnaður sé samkvæmt verklagi.

„Lögreglan er með verklag sem fer í gang þegar tilkynnt er um aðila sem eru grunaðir um að vera með skotvopn meðferðis.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert