Bíll lögreglumannsins brenndur að sænskri pöntun

Runólfur Þórhallsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá greiningadeild ríkislögreglustjóra.
Runólfur Þórhallsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá greiningadeild ríkislögreglustjóra. Samsett mynd

Málið sem Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra vísar til þegar hún sagði dæmi um að sænskir glæpahópar hefðu verið sendir gagngert til Íslands til að fremja afbrot vísar til þess þegar kveikt var í bíl lögreglumanns fyrir utan heimili hans í ágúst á síðasta ári.

Gerendur í málinu voru að vinna eftir pöntun frá sænsku glæpagengi. Málið var á sínum tíma rannsakað sem hefndaraðgerð gagnvart þessum tiltekna lögreglumanni. 

„Við höfum staðfestar upplýsingar um hóp manna sem kom hingað í þessum tilgangi,“ segir Runólfur Þórhallsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá greiningardeild ríkislögreglustjóra. 

„Málið sem við upplýstum dómsmálaráðherra um var þannig að verknaðurinn var í raun pantaður af glæpahópi í netheimum. Þá ferðast menn oft yfir landamærin í þeim tilgangi að fremja afbrotið,“ segir Runólfur.

Fram kom í máli Peter Hum­melgard, dóms­málaráðherra Dan­merkur, á fundi dómsmálaráðherranna að glæpagengi hafi stundum þann háttinn á að bjóða verk út í netheimum þar sem glæpahópar eða einstaklingar vita fyrirfram hvaða upphæð er í boði fyrir tiltekið verk. Slíkur háttur virðist hafa verið á í þessu tilviki. 

Kronogård-gengið 

Pöntunin kom frá Kronogård-genginu Trollhattan, að sögn Runólfs. Gengið er fjölþjóðlegt en hefur verið stýrt af Palestínumönnum. „Því er kannski ósanngjarnt að segja að þetta komi frá Svíþjóð. Þetta er starfsemi sem samanstendur af ólíkum þjóðernum og er allt í kringum okkur,“ segir Runólfur. 

Þröngt túlkaðir glæpahópar 

Spurður segir hann þetta gengi einungis einn þeirra glæpahópa sem reynt hafa að hasla sér völl hérlendis. „Það eru 8-12 glæpahópar sem við setjum á merkimiðann; erlendir glæpahópar. En það eru a.m.k. 15-18 glæpahópar starfandi hér á landi,“ segir Runólfur.

Í þessu samhengi segir Runólfur að taka beri tillit til þess að Landsréttur hefur túlkað frekar þröngt hvað teljist skipulagður glæpahópur. „Því er þetta varlega áætlað,“ segir hann.

Talað hefur verið um að ágætis samkomulag ríki á milli hópa hérlendis. Hins vegar hafa menn allt frá árinu 2021 sagt í skýrslum frá ríkislögreglustjóra að þeir óttist að átök brjótist út.

Hert landamæraeftirlit  

Eru vísbendingar um að ofbeldi sé að aukast af þessum sökum ? 

„Við sjáum ekki sterka þróun í þessa átt. En þetta er eitthvað sem við þurfum að huga vel að, að þetta geti raungerst hjá okkur. Við sjáum þetta í löndunum í kringum okkur. Þar eru grimmileg átök á milli glæpahópa,“ segir Runólfur. 

Guðrún Hafsteinsdóttir boðaði hertar aðgerðir á landamærunum í fréttum RÚV í kvöld. Runólfur segir að Guðrún hafi brugðist vel við óskum lögreglu um aukinn mannafla og með því að herða eftirlitið á landamærunum. Hins vegar megi lögregla enn bæta sig með aukinni frumkvæðisvinnu og betri tækniþekkingu t.a.m. 

Börn hagnýtt til þjófnaðar á Íslandi 

Fram kom á ráðherrafundi dómsmálaráðherra Norðurlandanna í síðustu viku að gjarnan sé verið að hagnýta börn til afbrota á Norðurlöndunum. Runólfur segir einnig dæmi um þetta á Íslandi. Ekki eru síst dæmi um að verið sé að hagnýta börn sem hafa stöðu flóttamanns.

„Við erum að heyra það frá lögreglumönnum sem eru úti á götu að það hafa verið hópamyndanir í kringum verslunarmiðstöðvar. Þar eru börn undir 18 ára aldri. Þarna eru ekki staðfest mál um alvarleg afbrot en það er t.d. verið að gera þau út í þjófnaði,“ segir Runólfur.

Hann segir sambærileg dæmi um þetta í Svíþjóð og Danmörku en þar séu dæmi um mun alvarlegri atvik. Menn vilja síður sjá svipaða þróun hér, þar sem börn hafa valið að „taka fjarkann.“ Það vísar til þess að hámarksrefsing fyrir börn undir lögaldri er fjögurra ára fangelsi, jafnvel fyrir mjög alvarleg afbrot.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert