Bráðalæknar nú á vakt Neyðarlínu

Jón Magnús Kristjánsson.
Jón Magnús Kristjánsson. mbl.is/Sigurður Bogi

Bráðalæknar eru frá því í sumar í þeim hópi sem svarar símtölum sem berast til Neyðarlínunnar. Erindin þangað eru ótöluleg en oft er haft samband og óskað aðstoðar vegna slysa og bráðra veikinda. Neyðarverðir geta þá, þegar fyrstu ráðstafanir hafa verið gerðar, falið lækni á vakt málið til úrlausnar. Sá er þá í sambandi við sjúkraflutningamenn, lögreglu eða aðra sem komnir eru á vettvang. Geta veitt þeim ráð og gert ráðstafanir í krafti upplýsinga.

„Reynslan er góð,“ segir Jón Magnús Kristjánsson bráðalæknir sem hefur leitt þetta verkefni. Hann tiltekur ýmis dæmi um hvernig hægt hefur verið að bregðast fljótt við; veita leiðbeiningar og stuðning og kalla út frekari bjargir, svo sem þyrlu, ef aðstæður krefjast. Hestaslys og hjartaáfall; vandamálin eru mörg. Fjarskiptalækningar eins og nú er sinnt hjá Neyðarlínunni eiga sér fyrirmyndir til dæmis annars staðar á Norðurlöndum og í Bandaríkjunum, þar sem bráðaþjónusta er mjög þróuð. Verkefnið nýtur sérstaks stuðnings frá heilbrigðisráðuneytinu og er tryggt fjármagn út árið.

„Bráðalæknar þurfa að tileinka sér þekkingu og inngrip frá öllum sviðum læknisfræðinnar. Ekki svo að skilja að mikið af nýjum lyfjum eða tækjum sé að koma inn heldur er stóra breytingin í bráðaþjónustu kannski sú að þjónustan á hverri heilbrigðisstofnun um sig er sett upp á talsvert markvissari hátt en áður,“ segir Jón Magnús. 

Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert