„Fyrst varð ég hissa – en svo hugsaði ég, þetta er ekki neitt.“
Þetta segir Qussay Odeh en hann er einn þeirra sem lögregla beitti piparúða gegn á mótmælum fyrir utan fund ríkisstjórnarinnar í Skuggasundi fyrr á þessu ári.
Qussay er Palestínumaður, fæddur í Jerúsalem, sem hefur verið búsettur á Íslandi í 25 ár og starfar á velferðarsviði Reykjavíkurborgar, en hann var gestur Dagmála nýverið.
Ljósmyndari Morgunblaðsins festi atvikið á filmu og hefur myndin vakið mikla athygli þar sem Qussay stendur kyrr með báðar hendur utan um Palestínufána.
Var það mat margra að beiting úðans á Qussay hafi virst tilefnislaus og borið vott um óhóflega valdbeitingu lögreglunnar á mótmælunum.
Spurður um atvikið kveðst Qussay ekki leiða hugann mikið að því núna en að ljóst hafi verið að mótmælendur voru friðsamlegir og saman komnir af góðri ástæðu – ekki til að angra fólk af engu tilefni.
„Maður horfir daglega, allan daginn og alla nóttina, á fólkið að deyja. Börnin. Allt sem er að gerast á Gasa. Svo kemur smá piparúði, þetta er ekki neitt,“ segir Qussay.
Það komi honum á óvart á hverjum degi hvernig lífið haldi áfram með eðlilegum hætti miðað við magnið af myndefni af hörmungunum á Gasasvæðinu sem berist fólki í gegnum samfélagsmiðla á degi hverjum.
„Við erum enn þá að hugsa og ræða og tala um helförina og þar voru bara örfáar myndir sem við sáum. En magnið af myndum og vídeó... bara þetta er að gerast. Þetta er þjóðarmorð í beinni útsendingu.“
Aðspurður kveðst Qussay ekki reiður lögreglu fyrir að hafa beitt piparúða á sig.
„Það hljómar asnalega en ég finn dálítið til með lögreglumönnunum sem voru þarna. Ég skil þá ekki, ég er ekki að réttlæta það sem gerðist en ég finn til með þeim.“
Slík valdbeiting við friðsamlega mótmælendur hljóti að hans mati að þýða að lögreglumennirnir hafi verið undirmannaðir eða upplifað einhvers konar stjórnleysi.
Hefði það helst verið óskandi að ríkisstjórnin hefði tekið skýrari afstöðu gegn hernámi Ísraels og að ekki hefði þurft að mótmæla aðgerðaleysi þeirra.
„Aðgerðarleysi og stuðningur ríkisstjórnarinnar við Ísrael gerðu þetta. Ég hefði óskað þess að við hefðum bara farið niður á Austurvöll að mótmæla þjóðarmorði.“