Fimm konur hafa lýst ofbeldi samstarfsmannsins

Sólon er sakaður um ofbeldi gegn fimm samstarfskonum hjá Icelandair. …
Sólon er sakaður um ofbeldi gegn fimm samstarfskonum hjá Icelandair. Ein þeirra hefur kært hann til lögreglu fyrir nauðgun. Tveimur dögum eftir að mannauðsdeild fyrirtækisins fékk hann til fundar vegna ásakananna og honum var gert að segja upp fannst hann látinn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fimm konur upplýstu Icelandair um ofbeldi, andlegt eða líkamlegt eða hvoru tveggja, sem þær töldu sig hafa orðið fyrir af hálfu samstarfsmanns síns hjá flugfélaginu. Þá hefur ein kvennanna lagt fram kæru til lögreglu vegna brots gegn 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga, en sú grein tekur til brota vegna nauðgunar.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá konunum sem lögmaður þeirra, Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, sendi.

Er yfirlýsingin send í kjölfar umfjöllunar í kvöldfréttum Stöðvar 2 á föstudaginn. Þar var sagt frá því að flugmaðurinn Sólon Guðmundsson, 28 ára, hafi fallið fyrir eigin hendi í lok ágúst, eftir að mál honum tengd voru tekin fyrir hjá Icelandair. Vildi fjölskylda hans fá frekari upplýsingar um þær ásakanir sem bornar höfðu verið á Sólon og að lögregla myndi rannsaka andlát hans. Flugfélagið hafi þó sagt að því væri ekki heimilt að afhenda upplýsingarnar.

Var rætt við Hödd Vilhjálmsdóttur, talsmann fjölskyldunnar, sem sagði að Sólon hefði orðið fyrir einelti innan fyrirtækisins og að í apríl hafi hann lagt fram kvörtun vegna eineltis tveggja samstarfskvenna sinna. Sú kvörtun hafi hins vegar ekki verið tekin til skoðunar og að sögusagnir hafi áfram dreifst um fyrirtækið.

Meint nauðgun í júlí kærð til lögreglu

Í tilkynningunni frá Vilhjálmi segir hann að atvikið sem nær til nauðgunarákvæðisins hafi átt sér stað í lok júlí á þessu ári, en í beinu framhaldi hafi konan leitað til sálfræðings sem sendi hana á neyðarmóttöku fyrir þolendur kynferðisofbeldis.

Konan hafi svo upplýst Icelandair um hið meinta brot um miðjan ágúst og stuttu síðar lagt fram kæru hjá lögreglu.

Fram kom í fréttum Stöðvar 2 um málið á föstudaginn að Sólon hefði verið boðaður á fund hjá mannauðsdeild Icelandair 22. ágúst og greint frá ásökunum á hendur honum, en hann hafi þó ekki fengið að vita hverjar ásakanirnar voru. Hann hafi verið þvingaður til að segja upp og tveimur dögum síðar fannst hann látinn.

Umfjöllun síðustu daga þungbær

Engin ofangreindra fimm kvenna hefur áhuga á því að vera hluti af opinberri umræðu um málið. Þvert á móti þá hefur fjölmiðlaumfjöllun síðustu daga verið þeim þungbær. Að gefnu tilefni vilja þær hins vegar koma ofangreindu á framfæri,“ segir að lokum í tilkynningunni frá Vilhjálmi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert