Fundu ekki fleiri hvítabirni

Þyrla Landhelgisgæslunnar á Vestfjörðum í dag.
Þyrla Landhelgisgæslunnar á Vestfjörðum í dag. Ljósmynd/Halldór Sveinbjörnsson

Þyrla Landhelgisgæslunnar fór í könnunarflug yfir Vestfirði í dag þar sem leitað var eftir hvítabjörnum en í síðustu viku gekk hvítabjörn á land á Höfðaströnd í Jökulfjörðum þar sem hann var felldur.

Lögreglan á Vestfjörðum fór á þess á leit við Landhelgisgæsluna að fara í könnunarflugið. Þyrlan fór í loftið klukkan 10 í morgun og sótti lögreglumann til Ísafjarðar og fór svo í framhaldi í leit á Hornströndum, Jökulfirði og á fleiri stöðum.

„Það var flogið um allt svæðið frá Bjarnafirði og það sáust engin ummerki. Við vildum ganga úr skugga um að ekki væri fleiri hvítabirnir og leita af okkur allan grun. Það er fólk ennþá inni á svæðinu og við vildum hafa allan varann á,“ segir Hlynur Snorrason, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Vestfjörðum, í samtali við mbl.is.

Hvítabjörninn, sem var felldur á Höfðaströnd í síðustu viku eftir að hafa sést í nálægð við hýbýli fólk, reyndist vera ungt kvendýr.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert