Guðrún vinsælasti ráðherrann

Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra.
Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra. mbl.is/Eyþór

Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra þykir hafa staðið sig best á yfirstandandi kjörtímabili samkvæmt könnun Maskínu. Bjarni Benediktsson forsætisráðherra þykir hafa staðið sig verst.

Þetta kemur fram í könnun Maskínu sem Vísir greinir frá.

7,3% svarenda segja Guðrúnu hafa staðið sig best á kjörtímabilinu og tekur hún þar með fram úr Katrínu Jakobsdóttur, fyrrverandi forsætisráðherra, sem 7,1% svarenda sögðu hafa staðið sig best.

Þar á eftir kemur Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, en 7% svarenda segja hana hafa staðið sig best.

Tekið skal fram að munurinn á Guðrúnu, Katrínu og Áslaugu Örnu er ekki marktækur.

Þá segja 5,7% svarenda að Willum Þór Þórsson hafi staðið sig best en aðrir ráðherrar fengu 4,6% eða minna.

Svandís og Bjarni óvinsælust

Þá töldu 38,6% svarenda Bjarna Benediktsson hafa staðið sig verst allra ráðherra á kjörtímabilinu.

10,1% svarenda sögðu Svandísi Svavarsdóttur innviðaráðherra hafa staðið sig verst og 4,7% svarenda sögðu Katrínu hafa staðið sig verst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert