Hækkuðu verðið og buðu svo afslátt

Afslátturinn gildir fyrir þá sem eru með orkulykil.
Afslátturinn gildir fyrir þá sem eru með orkulykil. mbl.is/Kristinn Magnússon

Orkan hefur hækkað verð sitt hjá átta hraðhleðslustöðvum úr 48 krónum í 58 krónur. 

Þess í stað hefur viðskiptavinum með orkulykilinn verið boðið upp á 12 króna afslátt. Er kílóvattstundin (kWh) því tveimur krónum ódýrari en fyrir hækkun fyrir viðskiptavini með orkulykilinn.

Þetta kemur fram í svari Auðar Daníelsdóttur, forstjóra Orkunnar, við fyrirspurn mbl.is.

Orkan er með tíu hraðhleðslustöðvar og gildir verðhækkunin og afslátturinn sem fylgir orkulyklinum á átta hraðhleðslustöðvum.

Lægsta verðið er á Fitjum og á Vesturlandsvegi þar sem verðið er 38 krónur en þar virkjast afsláttur orkulykla ekki.

Ákall frá viðskiptavinum

„Það hefur verið ákall frá viðskiptavininum að virkja Orkulykilinn fyrir rafmagn líkt og við erum með fyrir bensín/dísel og með þessum hætti geta okkar tryggustu viðskiptavinir fengið lægra verð en var fyrir verðhækkun,“ segir í svari Auðar.

„Við hvetjum alla til að sækja Orkulykilinn, það er hægt að sækja hann með einföldum hætti í gegnum heimasíðuna. Þar er einnig að finna fleiri fríðindi sem fylgja Orkulyklinum, hvetjum alla til að kynna sér málið.“

Hún bendir einnig á að Orkan sé eina félagið á markaðnum sem sé með verðið sýnilegt á verðstaurum félagsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert