„Halda áfram í sinni taumlausu græðgi“

Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandins.
Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins, segir sorglegt að bankarnir séu að hækka vexti sína á sama tíma og almenningur sé að bíða eftir að það gagnstæða gerist og að þeir fari niður.

Landsbankinn tilkynnti í morgun að breytilegir vextir á innlánsreikningum bankans hækki um 0,25 prósentusig sem er öllu minni hækkun en hjá Arion banka og Íslandsbanka. Þeir hækkuðu vexti sína um 0,40 til 0,50 prósentustig á dögunum.

„Bankarnir halda áfram í sinni taumlausu græðgi og það er mikilvægt fyrir bankana að átta sig á því að þegar verkalýðshreyfingin tók ákvörðun um það að fara fram með hófstilltar launahækkanir þrátt fyrir vöruverð og vextir hafi hækkað mikið þá var það gert til þess að stuðla að því að við myndum skapa skilyrði fyrir vaxtalækkun,“ segir Vilhjálmur í samtali við mbl.is.

Landsbankinn skilað 192 milljörðum í arðgreiðslur

Vilhjálmur segir að það sé ágætt að rifja það upp að Landsbankinn, sem er í eigu ríkisins, sé búinn að skila ríkissjóði 192 milljarða í arðgreiðslur frá árinu 2013.

„Þetta eru engar smátölur og við skulum átta okkur á því að þær verða til hjá almenningi og viðskiptavinum bankans. Hreinar vaxtatekjur bankanna hafa aukist gríðarlega á undanförnum árum. Það sýna allar tölur og hve mikill hagnaður bankanna hefur verið,“ segir Vilhjálmur.

Vilhjálmur segir stærsta málið sé að koma vöxtunum niður en með ákvörðun sinni séu bankarnir ekki tilbúnir að taka þátt í þeirri vegferð.

„Viðskiptabankarnir eru ekki einu sinni tilbúnir til þess að taka þátt í því með íslensku launafólki, heimilum og litlum og meðalstórum skuldsettum fyrirtækjum að halda aftur að sér og leggja örlítið á sig til þess að ná markmiðum okkar. Þetta er sorglegt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert