Höfðu uppi hótanir fyrir utan félagsmiðstöð

Bréfið var stílað á foreldra nemenda í Réttarholtsskóla.
Bréfið var stílað á foreldra nemenda í Réttarholtsskóla. mbl.is/Árni Sæberg

Hópur unglinga hafði uppi hótanir fyrir utan félagsmiðstöðina Bústaði í kvöld og mætti lögregla á vettvang. Engum varð líkamlega meint af.

Þetta kemur fram í bréfi sem forstöðumaður Bústaða sendi á foreldra nemenda í Réttarholtsskóla og mbl.is hefur undir höndum. 

„Í kvöld kom upp atvik fyrir utan Bústaði. Hópur utanaðkomandi unglinga var fyrir utan félagsmiðstöðina og höfðu uppi hótanir. Starfsfólk Bústaða steig inn í og tryggði aðstæður strax í upphafi og kom lögregla í kjölfarið. Engum varð meint af,“ segir í bréfinu.

Foreldrar hvattir til að ræða við börnin

Fram kemur í bréfinu að unglingarnir í félagsmiðstöðinni hafi orðið vitni að atvikinu og komu lögreglunnar og að við þannig aðstæður verði alltaf einhverjir skelkaðir.

Eru foreldrar því hvattir til þess að ræða börnin sín ef þau voru viðstödd atvikið.

Foreldrar eru jafnframt hvattir til að hafa samband við félagsmiðstöðina ef upp vakna spurningar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert