Jódís fram á móti Guðmundi: „Verður erfiður vetur“

Jódís og Guðmundur hafa tilkynnt um framboð í varaformann VG.
Jódís og Guðmundur hafa tilkynnt um framboð í varaformann VG. Samsett mynd

Jódís Skúladóttir, þingmaður Vinstri grænna (VG), mun í það minnsta etja kappi við Guðmund Inga Guðbrandsson, starfandi formann VG, um embætti varaformanns flokksins.

Jódís segir í samtali við mbl.is að of miklar málamiðlanir hafi verið gerðar í ríkisstjórninni og finnur hún fyrir ákalli eftir meiri vinstristefnu.

„Ég held að það sé köllun innan hreyfingarinnar að við stöndum svolítið fast í lappirnar í okkar stefnu og okkar vinstri. Ég hef síðan ég byrjaði í pólitík reynt að gera það,“ segir hún.

Verið í lausu lofti frá því að Katrín hætti

Eng­inn hef­ur til­kynnt um for­manns­fram­boð en lands­fund­ur flokks­ins hefst í næstu viku.

„Það urðu ótrúlegar breytingar þegar okkar góði formaður Katrín Jakobsdóttir hvarf af sviðinu. Mér hefur fundist við vera dálítið í lausu lofti síðan. Það auðvitað breyttist margt, við vorum með forsætisráðuneytið en erum ekki lengur með það þannig það eru aðrir tímar og ég held að það sé alveg eftirspurn eftir nýjum fronti og nýju fólki.“

Þyngra en síðasta kjörtímabil

Hún segir allt kjörtímabilið „hafa einkennst af ákveðnum þyngslum“ og segir núverandi kjörtímabil vera þyngra en síðasta kjörtímabil. Hún kveðst þó sátt við mjög margt sem hefur áunnist „en það hafa verið ákveðin mál sem hafa verið okkur mjög þung“.

Hún kveðst sjálf ekki alltaf hafa verið sátt við þær málamiðlanir sem hafa verið gerðar og kveðst hún vilja leggja sín lóð á vogarskálarnar.

„Ég vil fara aftur í ræturnar, að við hlustum á okkar grasrót og stöndum þéttar með okkar stefnu,“ segir hún.

Hefur efasemdir um sum mál á dagskrá

Finnst þér að VG eigi að halda þessu stjórnarsamstarfi gangandi út kjörtímabilið?

„Það fer auðvitað eftir málunum og stöðunni hverju sinni. Ég er ekki tilbúin til þess að við höldum áfram í ríkisstjórn bara „sama hvað“,“ segir hún og bætir við:

„Einhvers staðar eru þolmörkin. Það eru ákveðin mál sem eru á málaskrá sem ég hef miklar efasemdir um og ég held að allir stjórnarflokkarnir séu meðvitaðir um það að þetta verður erfiður vetur. En ég held að við treystum okkur alveg í vinnuna,“ segir Jódís og bætir því við að hún muni standa þétt með stefnu VG.

Jódís Skúladóttir.
Jódís Skúladóttir. Ljósmynd/Aðsend

Munu ekki samþykkja lokuð búsetuúrræði

Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra hyggst m.a. kynna frumvarp um móttökumiðstöð fyrir hælisleitendur og búsetuúrræði fyrir hælisleitendur. Spurð hvort að henni finnist VG geta samþykkt þessi mál segir Jódís:

„Lokuð búsetuúrræði höfum við alltaf verið mjög skýr um að við getum ekki samþykkt. Við þurfum auðvitað bara að horfa á samhengi hlutanna, staðan er ekki endilega frábær eins og hún er. Við þurfum að vera opin fyrir því að skoða einhverjar lausnir en ég dreg það mjög í efa að það verði samhljómur með því sem Guðrún leggur fram.

Ég sit í allsherjar- og menntamálanefnd, hvar málin koma til afgreiðslu, og mun þar fara með nefndinni í gegnum öll þau mál sem koma þar inn frá öllum ráðherrum. En þetta er eitt af þeim málum sem er alveg líklegt að muni steyta á.“

Vill ferska vinda í forystuna

Jódís tilkynnti um sitt varaformannsframboð á undan Guðmundi Inga og lítur ekki svo á að hún sé að bjóða sig fram gegn honum.

Það sé þannig í pólitík að fólk þurfi stundum að takast á við eigin flokksfélaga en það sé ekki þar með sagt að það sé vantraust á viðkomandi.

„Svona er bara pólitíkin og ég hef trú á því að ég geti komið með ferska vinda inn í forystu hreyfingarinnar og ég held að það sé full þörf á því núna,“ segir Jódís og bætir því við að hún finni fyrir góðum stuðningi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert