Skipti um skóla vegna ofbeldis: „Hún er ekki ánægð“

Marta segist strax sjá jákvæðar breytingar á líðan dóttur sinnar, …
Marta segist strax sjá jákvæðar breytingar á líðan dóttur sinnar, eftir að hún hætti að mæta í Helgafellsskóla. Samsett mynd

Sex ára stúlka sem varð fyrir ítrekuðu ofbeldi af hálfu bekkjarbróður í Helgafellsskóla í Mosfellsbæ er nú komin í annan skóla. Að sögn móðurinnar er stúlkan ekki sátt við að þurfa að yfirgefa vini sína og skilur ekki af hverju hún þarf að skipta um skóla. Jákvæðar breytingar hafa hins vegar strax orðið á almennri líðan hennar.

Marta Eiríksdóttir, móðir stúlkunnar, birti færslu á Facebook í síðustu viku þar sem hún rakti mál dóttur sinnar og samskiptin við skólastjórnendur í Helgafellsskóla. Stúlkan varð fyrir ítrekuðu ofbeldi af hálfu bekkjarbróður síns, hann er sagður hafa hótað henni lífláti og mætti eitt sinn með hníf í skólann. Í færslunni gagnrýndi Marta aðgerðarleysi skólastjórnenda og kuldalega framkomu. Sagði hún dóttur sína vera orðna skelina af sjálfri sér af ótta við drenginn. Hún væri óörugg, hrædd og kvíðin, fengi martraðir og gæti ekki verið ein.

Áttaði sig enn betur á því hve alvarlegt málið væri

Færsla Mörtu vakti gríðarlega athygli en hún bjóst engan veginn við þeim viðbrögðum sem hún fékk. „Það sprakk algjörlega allt í loft upp, við erum bara ennþá að ná okkur eftir viðbrögðin,“ segir Marta í samtali við mbl.is. Hún hafi verið í hálfgerðu áfalli alla vikuna. Eftir að hafa verið orðin samdauna málinu segir hún það hafa skipt sköpum að fá á það sýn annarra. Hún hafi þá áttað sig enn betur á því hvað málið væri í raun alvarlegt.

„Við fengum send skilaboð frá fólki sem við þekkjum og hafði ekki hugmynd um þetta og einnig fólki sem hefur lent í svipuðu með sín börn, eineltismál og annað þar sem þolandinn hefur alltaf þurft að víkja.“ Marta kom einmitt inn á það í færslu sinni að það skyti skökku við að dóttir hennar hrökklaðist úr skólanum á meðan gerandinn missti hvorki úr skóla né frístund.

Ekki ánægð en er að koma til baka

Eins og áður sagði er stúlkan nú komin í annan skóla og er á þriðja degi í aðlögun þar. Sjálf er hún ekki sátt við breytingarnar.

„Hún er ekki ánægð, hún vill þetta alls ekki. Hún skilur ekki af hverju hún þarf að fara í annan skóla, hún vill fá að vera með öllum vinum sínum. Þetta er bara alveg ömurlegt og búið að vera ótrúlega erfitt fyrir okkur öll í fjölskyldunni að horfa upp á hana. Maður er svo svekktur, sár og sorgmæddur. Það er allur tilfinningaskalinn.“

Marta segir Helgafellsskóla hafa gefið foreldrunum skýr skilaboð um að ekki væri hægt að tryggja öryggi dóttur þeirra í skólanum. Því hafi þau ekki séð annan kost í stöðunni en að færa hana í annan skóla, þó að ákvörðunin hafi verið mjög erfið.

„Númer eitt, tvö og þrjú hjá okkur er að henni líði sem best. Þegar hún hætti að mæta í skólann fórum við strax að sjá breytingu á líðan hennar. Hún er að koma til baka og farin að anda léttar. Ef maður getur bara sett sig í hennar spor, að þurfa að vera í streituvaldandi umhverfi, að vera hrædd við einstakling sem er búinn að valda miklum skaða.“

Skólinn ófær um að greiða úr málinu

Þó að dóttir Mörtu skilji ekki að fullu af hverju hún þarf að fara í nýjan skóla segir hún hana skilja að foreldrarnir vilji gera það sem sé best fyrir hana. Hún bæði skilji og finni sjálf að henni geti ekki liðið vel í Helgafellsskóla, þó að hún sakni vina sinna.

„Við sáum ekki að hún ætti afturkvæmt í gamla skólann, bæði er allt traust löngu farið og allir sénsar búnir og við sáum ekki að henni gæti liðið vel í þessu umhverfi. Einnig fengum við þau svör að það væri lítið hægt að gera til að tryggja öryggi hennar. Það er eins og skólinn geri ráð fyrir að þetta gufi upp og lagist af sjálfu sér.“

Þau hafa ekki farið á fund hjá Helgafellsskóla en voru boðuð á fund hjá fræðslu- og frístundasviði Mosfellsbæjar í vikunni, þar sem Marta segir þau hafa mætt góðu viðmóti. 

„Við höfum alltaf fengið gott viðmót þar en málið hefur alltaf verið sett í hendurnar á skólanum, sem hefur verið ófær um að greiða úr því. Núna er þetta bara orðið of seint. Þó að við hefðum mætt á einhvern fund sáum við ekki fyrir okkur að hægt væri að leysa þetta,“ segir Marta.

„Við fengum þær upplýsingar að drengurinn væri kominn inn í skólastofuna að fullu og á meðan hún er alltaf að horfa yfir öxlina á sér getur hún ekki fúnkerað,“ bætir hún við.

Ekki hætt að berjast

Foreldrarnir eru hins vegar ekki hættir að berjast fyrir rétti dóttur sinnar. Þó að hún sé komin í nýjan skóla og það horfi til betri vegar hvað varðar líðan hennar sé staðan engu að síður sú að hún hafi þurft að víkja úr sínum gamla skóla.

„Við erum að skoða allar leiðir sem við getum, leita réttar hennar og réttar okkar, þó að hún snúi aldrei aftur í þennan skóla. Líka svo að önnur börn og aðrar fjölskyldur þurfi ekki að ganga í gegnum þetta.“

Marta segist vita til þess að foreldrar margra barna í bekknum séu virkilega ósáttir við þessa niðurstöðu málsins. „Börnin spyrja af hverju hún sé hætt. Hún að missa vini sína og vinir hennar að missa hana.“

Ekki að ráðast á drenginn eða fjölskyldu hans

Móðir drengsins steig fram eftir að Marta birti færsluna og vildi koma syni sínum til varnar án þess þó að afsaka hegðun hans. Benti hún á að tvær hliðar væru á öllum málum. Sagðist hún alltaf hafa verið samvinnuþýð og að það væru reglulega haldnir teymisfundir í skólanum vegna drengsins, þar sem fagaðilar kæmu saman. Var hún sár yfir því að sonur hennar væri málaður upp sem ofbeldismaður og sagði að ekki væri boðlegt að verða fyrir svona árás á vefnum. 

Marta ítrekar, eins og kom fram í færslunni hennar, að hún sé ekki reið út í drenginn. Það sé ekki hægt, enda sé hann bara barn. „Það er klárlega eitthvað sem þarf virkilega mikið að aðstoða hann með. Það má ekki misskiljast að ég sé að ráðast á hann eða fjölskyldu hans.“

Henni finnst þó sárt að móðir drengsins hafi ákveðið að koma fram nafnlaust en samt tjá sig um hennar barn með þeim hætti sem hún gerði.

Gagnrýni gefur aukinn kraft

Einhverjir hafa gagnrýnt Mörtu fyrir að hafa kosið að stíga fram og segja sögu dóttur sinnar en hún segir það fólk gefa sér aukinn kraft til að halda áfram að berjast. Að opinbera sig á netinu hafi verið algjört neyðarúrræði en hún hafi ekki séð annan kost í stöðunni.

„Þetta fólk gleymir að setja sig í okkar spor, spor dóttur okkar sem er að ganga í gegnum þetta helvíti. Það er fáránlegt að það megi ekki að tala um ofbeldi, tala um svona alvarlega hluti. Þegar maður hefur reynt gjörsamlega allt er auðvitað fáránlegt að þetta þurfi að vera síðasta úrræðið, en það lýsir bara nákvæmlega samfélaginu, því sem er að þessu kerfi, að maður þurfi virkilega að ganga svona langt svo að það sé hlustað á mann. Það vill enginn þurfa að opinbera líf sitt fyrir alþjóð.“

Marta gerir sér vel grein fyrir því að dóttir hennar muni geta flett upp fréttum af þessu máli þegar hún verði eldri, en hún segist frekar vilja að dóttir hennar sjái að foreldrar hennar standi vörð um hagsmuni hennar en að hún upplifi að þau hafi staðið hjá án þess að gera nokkuð.

Þá ítrekar Marta það sem kom fram í færslu hennar í síðustu viku, að hún hafi heyrt af ótal börnum sem hafi þurft að hætta í Helgafellsskóla vegna eineltis, en þar á meðal sé ein frænka þeirra. 

„Vegna þess að ekkert er að gert. Þetta er gríðarlega alvarlegt. Þetta lítur allt vel út á yfirborðinu en svo er þetta bara ormagryfja.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert