Þriðjungi færri umsóknir

Útlendingastofnun.
Útlendingastofnun. mbl.is/Hari

1.489 umsóknir hafa borist um alþjóðlega vernd á Íslandi það sem af er þessu ári.

Í fyrra bárust alls 4.164 umsóknir og árið 2022 voru þær 4.520. Þau árin munar mestu um Úkraínubúa sem fá hér vernd á grunni fjöldaflótta. Ef Úkraínubúar eru undanskildir sóttu 2.178 um vernd árið 2022, 2.547 árið 2023 og 535 það sem af er þessu ári.

Útlendingastofnun hefur afgreitt um 2.550 umsóknir á þessu ári. Af þessum umsóknum hafa 1.435 verið synjað, þ.e. um 56% umsókna. Árið 2023 var 1.487 umsóknum synjað (42%) og árið 2022 voru þær 391 (10%), að því er kemur fram í tilkynningu.

Kærunefnd útlendingamála hefur afgreitt 1.719 mál á árinu, þar af 905 efnismeðferðarmál, 151 Dyflinnarmál, 123 griðlandsmál (öruggt þriðja ríki) og 159 mál þar sem viðkomandi hefur alþjóðlega vernd í öðru ríki.

Lögreglan að störfum.
Lögreglan að störfum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Til að styðja við það markmið að auka árangur í brottflutningi einstaklinga sem ekki hafa heimild til dvalar í landinu hafa Útlendingastofnun og heimferða- og fylgdardeild ríkislögreglustjóra sem annast framkvæmd brottflutninga og endursendinga verið efldar. Auk þess hafa verið gerðar breytingar á ferðastyrkjum og enduraðlögunarstyrkjum á grundvelli reglugerðar um fjárhagsaðstoð við sjálfviljuga heimför. Markmiðið með breytingunum var meðal annars að skapa jákvæðan hvata fyrir umsækjendur um vernd sem fengið hafa neikvæða niðurstöðu til að snúa til síns heima. Af tölum að dæma virðast þessar breytingar hafa haft þau áhrif sem að var stefnt,“ segir í tilkynningunni.

70% aukning

Alls hafa 1.165 einstaklingar farið frá landinu það sem af er þessu ári, ýmist í sjálfviljugri heimför eða þvingaðri. Þetta er um 70% aukning, miðað við allt árið í fyrra.

Þvingaður brottflutningur hefur aukist um 36% á milli ára, bæði vegna verndarmála og annarra. Hjá heimferða- og fylgdardeild ríkislögreglustjóra liggja nú fyrir beiðnir um brottflutning 224 einstaklinga og um 140 slíkar beiðnir eru í vinnslu hjá Útlendingastofnun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert