Andlát: Þóra Kristjánsdóttir

Þóra Kristjánsdóttir listfræðingur er látin, 85 ára að aldri.
Þóra Kristjánsdóttir listfræðingur er látin, 85 ára að aldri. mbl.is/Goll

Þóra Kristjánsdóttir listfræðingur lést sunnudaginn 22. september, 85 ára að aldri.

Þóra fæddist í Reykjavík 23. janúar 1939 og ólst þar upp. Foreldrar hennar voru Kristján Garðarsson Gíslason stórkaup­maður og Ingunn Jónsdóttir húsfreyja.

Þóra gekk í Ísaksskóla og Melaskóla og varð stúdent frá MR 1959. Hún stundaði nám í listasögu í Uppsölum frá 1959-1961 og eftir það við Stokkhólmsháskóla. Las þar auk listasögu m.a. mannfræði og leikhúsfræði og lauk fil.cand.-prófi 1966. Lauk MA-prófi frá Háskóla Íslands árið 2003 með áherslu á listsagnfræði.

Á námsárum sínum 1965-67 vann hún á Listasafni Íslands, var fréttamaður á fréttastofu RÚV 1968-1974 og annaðist listræna starfsemi í Norræna húsinu frá 1974-80. Var í nokkur ár listráðunautur Kjarvals­staða og stóð þar fyrir mörgum merkum sýniningum, m.a. fyrstu sýningu á verkum Thorvaldsens utan Danmerkur.

Síðar var Þóra fyrst listfræðinga ráðin til Þjóðminjasafnsins. Þar lagðist hún i rannsóknir og beindi sjónum sínum einkum að list fyrri alda. Afrakstur þess var tímamótaritið Mynd á þili.

Þóra ritaði fjölda greina um íslenska myndlist í bækur, blöð og tímarit og vann ótal útvarpsþætti. Hún sat i framkvæmdastjórn Listahátiðar í Reykjavík og stjórn margra lista- og menningarstofnana hér á landi. Þá starfaði hún mikið fyrir Listvinafélag Hallgrímskirkju, m.a. sem formaður í nærfellt áratug og var gerð að fyrsta heiðursfélaga þar 2009.

Árið var 2020 var hún útnefnd fyrsti heiðursfélagi Listfræðafélags Íslands. Hún hlaut fálkaorðuna árið 2006 og málþing var haldið til heiðurs henni í janúar 2021 á vegum Listfræðafélagsins og Þjóðminjasafns Íslands. Þóra lét af störfum fyrir aldurs sakir árið 2009.

Eftirlifandi eiginmaður Þóru er dr. Sveinn Einarsson, leikstjóri og rithöfundur, fyrrverandi þjóðleikhússtjóri. Dóttir þeirra er dr. Ásta Kristjana, prófessor í heimspeki við Duke-háskóla. Maki hennar er dr. Dore Bowen Solomon, listfræðingur, prófessor við sama skóla, og dóttir þeirra er Þóra Djuna, f. 2013.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert