Kærir sig ekki um að vinna fyrir þingflokk Pírata

Atli er hættur að starfa fyrir þingflokk Pírata.
Atli er hættur að starfa fyrir þingflokk Pírata. Samsett mynd

„Ég er einn af löngum lista fólks sem kærir sig ekki um það að vinna fyrir þingflokk Pírata,“ segir Atli Þór Fann­dal, fyrr­ver­andi fram­kvæmda­stjóri Íslands­deild­ar Transparency International, en hann hef­ur látið af störf­um sem sam­skipta­stjóri þing­flokks Pírata.

Hann segir í samtali við mbl.is að hann sé ekki búinn að ákveða hvort hann muni kjósa Pírata í næstu kosningum þó að það sé líklegt.

Hann segir Pírata ekki hafa sýnt honum sömu væntumþykju og hann hefur sýnt Pírötum.

Kurr eftir landsþing

Eins og mbl.is hefur greint frá þá hefur óánægja ríkt meðal sumra pírata eft­ir landsþing flokks­ins í byrj­un mánaðar. Á þing­inu var kos­in ný fram­kvæmda­stjórn og stefnu- og málanefnd.

Fjór­ir af fimm aðal­mönn­um eru nýir í stjórn­inni. Meðal annars hefur óánægjan snúið að meintri aðkomu starfsmanna þingflokks að framboðum til stjórnar.

„Ég las hjá ykkur að þingflokksformaður hefði sagt opinberlega að ný stjórn væri réttkjörin, þannig þið vitið væntanlega meira um þetta en ég. Ég veit ekki til hvers fólk þarf að lýsa því yfir í fjölmiðlum,“ segir Atli, spurður hvort að ákvörðunin um að hætta hafi eitthvað haft að gera með kosninguna í framkvæmdastjórn. 

Styður nýkjörna stjórn

Þér finnst ný stjórn þá ekki vera réttkjörin?

„Jú. Ég styð nýja stjórn hundrað prósent og mun alltaf styðja réttkjörna stjórn en hingað til hefur maður ekki þurft að lýsa því yfir því það er svona „default“ afstaða gagnvart kosningum að það gilda reglur og þeim er ekki breytt eftir á,“ segir Atli en vildi að öðru leyti ekki tjá sig um málið.

Ekki fengið sömu væntumþykju frá flokknum

Hann segir ekki ákveðið hvort að hann muni kjósa Pírata í næstu kosningum en að honum sé annt um flokkinn.

„Ég mun ekki skilja alfarið við flokkinn. Hvort ég ætla að kjósa hann í komandi kosningum, veit ég ekki alveg. Jú, jú. Örugglega, ég er bara ekki alveg búinn að gera upp hug minn varðandi það,“ segir hann aðspurður.

„Mér þykir vænt um þessa hreyfingu. Þó að það hafi ekki alltaf verið þannig að þessi hreyfing hafi getað sýnt mér sömu væntumþykju þá þykir mér vænt um þessa hreyfingu.“

Uppfært klukkan 19.45

Upphaflega var haft eftir Atla: „Ég mun skilja alfarið við flokkinn.“ Þetta er ekki rétt og átti þarna að standa: „Ég mun ekki skilja alfarið við flokkinn.“ Þetta hefur verið leiðrétt. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert