Líkamsárásir í heimahúsum og ellefu gistu í fangaklefum

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði í nógu að snúast í gærkvöld …
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði í nógu að snúast í gærkvöld og í nótt. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ellefu manns gistu í fangaklefum lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í nótt en lögreglan hafði í mörg horn að líta í gærkvöld og í nótt og sinnti 60 verkefnum frá klukkan 17 í gær til klukkan 5 í morgun.

Lögreglunni bárust tilkynningar um tvær líkamsárásir í heimahúsum og eru bæði málin í rannsókn samkvæmt dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Lögreglustöð 3, sem sinnir Kópavogi og Breiðholti, fékk tilkynningu um slagsmál nokkurra aðila. Lögreglan er með upplýsingar um þá sem tóku þátt í slagsmálunum og er málið í rannsókn. 

Lögreglan þurfti að hafa afskipti af nokkrum ökumönnum. Í miðborginni var einn ökumaður stöðvaður grunaður um akstur án ökuréttinda. Við afskipti lögreglu reyndi viðkomandi að ljúga til um nafn sitt en hafði ekki erindi sem erfiði.

Þá var einn handtekinn grunaður um innbrot í bifreiðar og við leit á manninum fundust fíkniefni.

Einn ökumaður stöðvaður grunaður um akstur án ökuréttinda en sá var einnig að tala í farsíma og þá var ökumaður handtekinn eftir að hafa stungið af í kjölfar umferðaóhapps.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert