Með augun á boltanum vegna skipulagðra glæpa

Sérsveit ríkislögreglustjóra að störfum.
Sérsveit ríkislögreglustjóra að störfum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Skipulögð brotastarfsemi virðir engin landamæri og engin ástæða er til að halda að Ísland sé undanskilið þeirri þróun sem hefur átt sér stað. Mikilvægt er að stjórnvöld séu á tánum og starfi vel saman.

Þetta segir Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra, sem ræddi við blaðamann að loknum ríkisstjórnarfundi í morgun.

„Virðir engin landamæri“

„Það sem einkennir skipulagða brotastarfsemi er að hún virðir engin landamæri. Hún fer þvert á öll landamæri, teygir anga sína víða og getur jafnvel teygt anga sína í aðrar heimsálfur. Það er engin ástæða til að halda það að við séum undanskilin þeirri þróun, því miður. Við eigum að halda vöku okkar, við eigum að vera á tánum hvað þetta varðar. Þá þarf að vera þétt samspil, landamæragæslu, lögreglu og við embætti í löndunum í kringum okkur,“ segir Guðrún og lýsir yfir ánægju sinni með breytingarnar sem voru samþykktar á lögreglulögum í júní.

„Ef við ætlum að reyna að uppræta skipulagða brotastarfsemi þá gerum við það eingöngu með þéttu samráði við önnur embætti vegna þess að hún virðir engin landamæri.“

Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra.
Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra. mbl.is/Karítas

Gerum allt sem við getum

Getur almenningur treyst því að þið náið að gera þetta af nægilegri festu?

„Almenningur getur treyst því að ég er með augun á þessum bolta, lögreglan er að vinna framúrskarandi störf hvað þetta varðar. Við höfum verið að setja aukinn styrk til löggæslunnar til þess að sinna skipulagðri glæpastarfsemi. Við munum gera allt sem við getum og þess vegna er ég ánægð með að Alþingi hafi samþykkt breytingar á lögreglulögum,“ svarar dómsmálaráðherra.

Oft skrefi á undan

Spurð kveðst hún vilja sjá fleiri lögreglumenn á Íslandi. Mikilvægt sé líka að fá hæft fólk til starfa og að tækjabúnaður sé í lagi. Einkenni skipulagðrar glæpastarfsemi sé að hún virðist oft vera skrefi á undan yfirvöldum, m.a. þegar komi að nýjustu tækni.

„Við höfum séð vísbendingar um að það séu tengsl erlendra glæpahópa hingað til Íslands. Greiningardeildin gaf það út í skýrslu 2021 að það væru 8-12 skipulagðir glæpahópar hér á Íslandi. Það er vitakskuld gríðarlegur fjöldi í íslensku samfélagi og ástæða til að hafa verulegar áhyggjur af því," segir Guðrún. 

Stjórnvöld horfa á reynslu Norðurlandanna í baráttunni við skipulagða brotastarfsemi þar sem ungmenni, oft í viðkvæmri stöðu, hafa verið lokkuð til að fremja afbrot fyrir glæpahópa.

„Ég hef enga ástæðu til þess að ætla það að það geti ekki líka gerst á Íslandi og þess vegna þurfum við að halda vöku okkar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert