„Okkur líður líka óþægilega og finnst við óörugg“

Marta Maier situr í ungmennaráði Kringlumýrar.
Marta Maier situr í ungmennaráði Kringlumýrar. Ljósmynd/Aðsend

Marta Maier, nemandi í 10. bekk í Laugalækjarskóla, segir að ungmenni upplifi sig óörugg vegna aukins vopnaburðar í samfélaginu. Hún telur mikilvægt að raddir ungmenna fái að heyrast í umræðunni um málefni sem snúa að þeim.

Marta situr í ungmennaráði Kringlumýrar, en hún og nokkrir aðrir úr ráðinu munu halda erindi á foreldrafundi um líðan og öryggi ungmenna sem fram fer í kvöld.

„Það vantar mjög mikið upp á“

Spurð hvað þau muni ræða í erindinu segir Marta:

„Við munum ræða hvað okkur finnst um ástandið, stunguárásirnar og allt það sem er búið að gerast í samfélaginu. Við ætlum að tala um hvað okkur finnst og hvað þurfi að gera til að bæta þetta frá okkar sjónarhorni því það vantar mjög mikið upp á.“

Þá segir hún sérlega mikilvægt að ungmenni fái að tjá sig um þessi mál.

„Það er mjög gott og mikilvægt að við ungmennin fáum að segja frá okkar sýn á þetta því hingað til hefur það aðallega verið fullorðið fólk sem er að segja sínar skoðanir [á vandanum].

Okkur líður líka óþægilega og finnst við óörugg í umhverfi þar sem fólk gengur um með hnífa.“

Ekki góð tilfinning

Marta segir að árásin á Menningarnótt þar sem 17 ára stúlka var stungin til bana hafi vakið mikinn óhug.

„Það er ekki góð tilfinning að vera niðri í bæ og svo gerist eitthvað svona. Maður heldur að maður sé öruggur, Reykjavík á að vera ein öruggasta borg heims, en ef þetta er öruggt, hvað er þá heimurinn?“

Spurð hvort hún sjálf hafi orðið vör við aukið ofbeldi og hnífaburð meðal jafnaldra sinna segist hún ekki hafa upplifað það í sínu nærumhverfi en að hún frétti af öðrum unglingum sem beri til dæmis hnífa.

„Ég finn alveg að það er búið að aukast í samfélaginu.“

Foreldrar og félagsmiðstöðvar

Spurð hvernig hún telji að bregðast þurfi við þessum vanda nefnir Marta ýmislegt sem hún og félagar hennar í ungmennaráðinu ætla að ræða á fundinum á morgun, en hún leggur sérstaka áherslu á hlutverk foreldra og félagsmiðstöðva.

„Foreldrar þurfa til dæmis að koma inn í þetta og hafa augun alltaf opin. Hnífarnir eru nú líklegast að koma af heimilinu,“ segir Marta og bætir við:

„Svo ætlum við líka að koma því á framfæri að félagsmiðstöðvar ættu að koma af stað umræðu um þetta. Við myndum kannski frekar hlusta á félagsmiðstöðvastarfsfólk en aðra fullorðna eða kennara vegna þess að við teljum það frekar vera jafningja.“

Nenna ekki að hlusta á leiðinlega fræðslu

Á þeim nótum telur Marta að breyta þurfi því hvernig staðið er að fræðslu um mál sem þessi.

„Unglingar nenna ekkert að hlusta á einhverja leiðinlega fræðslu. Það þarf frekar að byrja bara umræðu þannig að þeir hafi meira frelsi til að segja sína skoðun,“ segir Marta og bætir við:

„Þeir ættu að hafa frelsi til að tjá sig um allt sem kemur að þeim og fá að segja sína skoðun.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert