„Orð eru einfaldlega ekki í samræmi við efndir“

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra.
Bjarni Benediktsson forsætisráðherra. mbl.is/Karítas

„Það er einhvers konar refsileysisástand að ríki komist upp með að gera hluti sem eru klárlega brot á skuldbindingum en það eru engin úrræði til þess að bregðast almennilega við,“ segir Bjarni Benediktsson forsætisráðherra sem nú er staddur á leiðtogafundi Sameinuðu þjóðanna í New York-borg.

Hann segir ákveðna áru vera yfir upphafsdögum fundarins og er harðorður gagnvart Rússlandi sem virtist vilja koma samþykkt framtíðarsáttmálans út af sporinu.

Um samþykkt sáttmálans segir Bjarni að um sé að ræða mikinn áfanga þó að fæðingin hafi verið erfið.

„Rússar virtust vilja koma málinu út af sporinu sem að á endanum tókst ekki. Það var yfirgnæfandi meirihluti ríkja sem að studdi sáttmálann og tvo viðauka við hann.“

Segir forsætisráðherrann að það hefði mátt vera ákveðnara orðalag á ýmsum stöðum í sáttmálanum um hluti eins og afvopnun og friðarmál en engu að síður sé mikil samstaða um aðra hluti. Nefnir hann mannréttindakaflann og málefni hinsegin fólks sem dæmi og undirstrikar hann að það séu hlutir sem ekki sé sjálfsagt að ná samstöðu um.

Orð ekki í samræmi við efndir

Þá segir Bjarni að finna megi vott af gremju í andrúmsloftinu við upphaf vikunnar á leiðtogafundinum.

„Það eru vonbrigði með það að það grefur undan trausti í alþjóðasamfélaginu. Skortur á trausti er alveg orðið sjálfstætt vandamál. Hérna koma saman mörg ríki og sum þeirra eru, bara á meðan fundað er, með augljósum hætti að fara gegn mörgum af grundvallargildunum eins og bara virðing fyrir landamærum eða mannúðarlögum eða mannréttindalögum. Ég er bara að vísa til vopnaðra átaka og stríðs sem við þekkjum,“ segir Bjarni og heldur áfram.

„Á sama tíma og Rússar eru í vopnuðum átökum þá mæta þeir á fund og eru með sjónarmið um ýmsa hluti og eru að beita áhrifum sínum hér þannig að maður skynjar að það er svona ákveðinn vanmáttur vegna þess að Sameinuðu þjóðirnar eru í sjálfu sér ekki með svörin þegar það verður svona mikill viðskilnaður á milli orðs og athafna. „Orð eru einfaldlega ekki í samræmi við efndir.“

Þá segir forsætisráðherrann að um einhvers konar refsileysisástand sé að ræða þegar engin úrræði eru til staðar til að bregðast við þegar ríki brjóta á skuldbindingum.

„Þessi ára er svona yfir þessum upphafsdögum hérna verð ég að segja. Það er mikið ákall um að finna lausnir til þess að bregðast við og þessi framtíðarsáttmáli er skref í rétta átt. Hann er ekki lausnin á öllum vandamálum en skref í rétta átt.“

Ekki mikil bjartsýni um farsæla lausn á átökum

Bjarni segir markmiðið vera að forða því að ógnir og áskoranir, sem horft er á í dag, muni ekki vaxa og verða stærri. Þá segir hann ekki mikla bjartsýni vera til staðar um farsæla lausn á átökunum í Úkraínu, Miðausturlöndum og Súdan.

„Það er mikil alvara og þungi í þeirri umræðu. En ríki koma hingað saman til þess að reyna að endurheimta traust og auka á það.“

Segir hann að talsvert verði rætt um Úkraínu á morgun þegar ráðherrafundir hefjast og muni Ísland þar árétta sinn stuðning við Úkraínu.

„Selenskí er kominn í borgina og verður með ávarp á morgun og við munum taka þátt í þessum fundum og koma okkar sjónarmiðum á framfæri.“

Leiðtogafundir af ýmsu tagi í vikunni

Þá segist Bjarni hafa setið fund í dag sem efnt var til með einkaaðilum til þess að tengja saman stjórnvöld og einkaaðila. Þar á dagskrá var meðal annars rætt hvernig hægt væri að hraða árangri að heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.

„Þarna voru margir. Forstjóri Ikea og margir úr hinum ýmsu geirum, allt frá skipafyrirtækjum yfir í orkufyrirtæki og eins líka ýmsir sjóðir og stofnanir sem eru að starfa á umhverfissviðinu til þess að þróa lausnir og flýta tækniframförum,“ segir Bjarni og bætir við.

„Það var áhugavert og það er auðvitað mikið um slíka viðburði hér alla vikuna. En ráðherravikan hefst formlega á morgun, þriðjudag. Þá er vika allsherjarþingsins að hefjast. Í framhaldi af því halda áfram leiðtogafundir af ýmsu tagi.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert