Saknar 20 lykla að fataskápum

Starfsfólk Árbæjarlaugar saknar 20 lykla að fataskápum í karlaklefa.
Starfsfólk Árbæjarlaugar saknar 20 lykla að fataskápum í karlaklefa. mbl.is/Valgarður Gíslason

„Við sáum það á mánudagsmorgni að það vantaði tuttugu lykla í karlaklefanum og við erum búin að vera með lásasmið í því að skipta um lása og núllstilla þetta allt saman,“ segir Vala Bjarney Gunnarsdóttir forstöðumaður Árbæjarlaugar í samtali við mbl.is um horfna lykla að skápum í karlaklefanum – mál sem hafi í för með sér hvort tveggja kostnað og umstang.

Segir hún augljóst að þarna hafi eitthvað annað verið á ferð en vanalega þegar einn og einn lykill hverfur. „Þá er það oft þannig að krakkar eru að taka lykla og læsa þá inni í öðrum skápum en því var ekki að fagna hér,ׅ“ segir Vala.

Kom með fötu af lyklum

Þegar lyklar hverfa eru lásarnir fjarlægðir úr viðkomandi skápum, teknir úr umferð í einhvern tíma og þeir svo ekki nýttir aftur á sama stað. „Það kemur alltaf fyrir að fólk tekur lykla óvart með sér heim en við lentum líka einu sinni í því máli að hér kom góður gestur með fötu af lyklum sem hann fann í þvottahúsinu í sameigninni hjá sér,“ segir Vala frá.

Lyklarnir eru eftirlýstir með frásögn af málinu í íbúahópi Árbæjar.
Lyklarnir eru eftirlýstir með frásögn af málinu í íbúahópi Árbæjar. Skjáskot/Facebook

Hún segir dýrt að kaupa varahluti auk þess sem tími fari í að skipta um lása. „Þetta reddast á endanum en okkur datt í hug að leita til nágranna,“ segir hún að lokum en tilkynning um atburðinn var birt í íbúahópi Árbæjar á Facebook. Vala segir alla geta komið og skilað lyklum sem finnist, starfsfólkið spyrji einskis en gott sé að laugin fái lyklana sína aftur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert