Mjög góð staða á landamærum miðað við önnur lönd

Dómsmálaráðherra er ánægður með störf lögreglustjórans á Suðurnesjum.
Dómsmálaráðherra er ánægður með störf lögreglustjórans á Suðurnesjum. Samsett mynd/Eggert Jóhannesson

Staðan á landamærunum er mjög góð í samanburði við önnur lönd sem eru á Schengen-svæðinu. Þetta segir Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra spurð að loknum ríkisstjórnarfundi í morgun út í áhyggjur lögreglustjórans á Suðurnesjum vegna landamæraeftirlits á landinu.

„Ábyrgð á landamærunum er hjá lögreglustjóranum á Suðurnesjum og þau hafa verið að standa sig gríðarlega vel. Nú er það þannig að við erum í margt sérstakri stöðu hér á Íslandi í samanburði við önnur lönd innan Schengen, þar sem við erum eyja. Ég hugsa að 97-98% allra þeirra sem koma til landsins koma í gegnum eina gátt. Það er allt önnur staða heldur en til dæmis Þjóðverjar eða Austurríki eru að glíma við sem eru með mörg aðliggjandi lönd og landamæri eru í rauninni öll ytri mörk ríkisins. Þar af leiðandi er staðan hér á landamærunum mjög góð í öllum samanburði við önnur lönd innan Schengen,“ segir Guðrún.

Flugstöð Leifs Eiríkssonar.
Flugstöð Leifs Eiríkssonar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Viðræður við ESB vegna farþegalista

Hún nefnir að yfirvöld fái farþegaupplýsingar um 93-94% allra farþega sem sé mjög gott í öllum samanburði. Engu að síður vill hún gera betur og bendir á samningaviðræður stjórnvalda við Evrópusambandið. Þær snúa að tilskipun ESB sem kveður á um að flugfélögum sé skylt að miðla upplýsingum um farþega og áhöfn til yfirvalda í hverju aðildarríki sambandsins.

„Þegar þeim lýkur þá eigum við að vera með farþegaupplýsingar um 99% allra farþega sem hingað koma. En þrátt fyrir að hér séu örfá flugfélög, fjögur, sem ekki skila farþegaupplýsingum, þá hefur lögreglustjórinn verið með handahófskennt eftirlit, farið inn í þessar vélar og verið mjög vel vakandi yfir því hvar eru svona veikir hlekkir. Það er mjög jákvætt,“ bætir Guðrún við. 

mbl.is/Eggert

Vill skoða andlitsgreiningartæki 

Hún kveðst einnig taka undir orð lögreglustjórans um að athuga þurfi með fjárfestingu í andlitsgreiningartækjum á flugvellinum. „Ég tek undir að það er full ástæða til að skoða það mjög gaumgæfilega. Við munum gera það í samráði við lögreglustjórann.“ Hún segist ekki treysta sér til að fullyrða um hvenær slík tæki gætu komist í notkun.

„Svo verðum við að hafa það í huga að eitt er að fjárfesta í búnaði og annað er að geta unnið úr þeim upplýsingum sem búnaðurinn er að gefa, að geta tengt hann inn í önnur kerfi landamæravörslu og lögregluembætta innan Schengen-ríkjanna þannig að við getum tengt þær upplýsingar sem er verið að safna inn í gagnabanka sem segir okkur eitthvað. Það er ekki nóg að taka bara mynd. Þú þarft að geta skoðað myndina og fengið söguna á bak við hana,“ greinir Guðrún frá.

Entry/Exit-kerfi í nóvember

Ráðherra nefnir einnig endurnýjun landamærastefnunnar sem hér hefur verið við lýði og segir að tillögur verði kynntar til að bæta ástand landamæranna enn frekar. Sömuleiðis nefnir hún innleiðingu svokallaðs Entry/Exit-kerfis á landamærunum sem er fyrirhuguð í öllum Schengen-ríkjunum í nóvember ef allt gengur eftir.

Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra.
Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra. mbl.is/Árni Sæberg

Upphaflega átti að innleiða kerfið vorið 2023 en því var frestað til síðustu áramóta. Unnið hef­ur verið að inn­leiðingu kerf­is­ins frá 2017. Meg­in­til­gang­ur þess er að auka gæði landa­mæra­eft­ir­lits og reikna á sjálf­virk­an hátt út tíma­lengd dval­ar út­lend­inga (rík­is­borg­ara þriðja rík­is) á Schengen-svæðinu. Nýja kerfið á einnig að styrkja lög­gæslu­yf­ir­völd í bar­átt­unni gegn hryðju­verk­um og glæp­um sem ná þvert á landa­mæri.

Kerfið í loftið á sama tíma á Schengen

„Við munum þurfa á sama deginum, á sama klukkutímanum að hefja notkun kerfisins á öllu Schengen-svæðinu. Ef eitthvað ríki er ekki tilbúið þá mun það koma í veg fyrir að öll ríkin geti hafið innleiðingu. Við ætlum ekki að láta stranda á okkur, Íslendingar, þannig að við erum búin að setja bæði fé og mannafla í það verkefni og ætlum okkur að vera tilbúin þegar það kerfi verður tekið í notkun. Það mun tryggja meira öryggi á svæðinu, það mun tryggja það að við vitum betur hverjir eru á Schengen-svæðinu og eins þegar fólk yfirgefur það, hverjir eru þá farnir,“ segir Guðrún og talar sömuleiðis um innleiðingu ferðaheimildar sem er sambærileg því sem þekkist í Bandaríkjunum.

mbl.is/Eggert

„Þannig að allir þeir sem komi inn á svæðið frá þriðju ríkjum þurfa að sækja um ferðaheimild, annars komast þeir ekki inn á svæðið. Það mun líka auka skráningu og þá upplýsingagjöf sem við höfum um alla þá sem eru á svæðinu á hverjum tíma. Við erum að leggja lokahönd á þetta verkefni og ég mun kynna það á næstu vikum, sem ég tel mjög til bóta.”

Ánægð með aukinn fjölda brottvísana 

Spurð hvort of mikill losarabragur hafi verið í landamæravörslu á Íslandi segir Guðrún svo ekki hafa verið á síðustu árum. Til dæmis hafi fjölgun brottvísana á landamærunum fjölgað gríðarlega mikið.

„Það gefur okkur til kynna að það er breytt verklag hjá landamæraeftirlitinu á Keflavíkurflugvelli. Það er að skila árangri, það er að valda því að einstaklingar sem eiga sannarlega ekki erindi inn í íslenskt samfélag er snúið við og þeir komast ekki inn í landið.“

mbl.is/Eggert
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert