„Þetta er grafalvarleg þróun sem við ætlum að taka mjög fast á“

Bjarni Benediktsson segir fyrirstöðu á þingi gegn því að lögregla …
Bjarni Benediktsson segir fyrirstöðu á þingi gegn því að lögregla myndi hafa tæki og tól til þess að verja borgara landsins hafa valdið sér vonbrigðum. mbl.is/Ari/mbl.is/eggert

„Við höfum lengi sagt að við Íslendingar verðum að vera á varðbergi fyrir sömu hlutum og hafa verið að gerast í nágrannalöndunum. Það er ástæða fyrir því að dómsmálaráðherra hefur ítrekað lagt fram tillögur til breytinga á lögreglulögunum til þess að auka heimildir lögreglunnar til að ná árangri,“ segir Bjarni Benediktsson forsætisráðherra um þá þróun sem á sér stað í tengslum við alþjóðlega glæpastarfsemi hér á landi.

Segir hann að þau frumvörp sem lögð hafa verið fram á Alþingi til að takast á við málefnið hafi ítrekað orðið ágreiningsefni og það hafi ekki verið fyrr en í vor þegar mál tengd slíkri glæpastarfsemi fóru ítrekað að koma fram að frumvarp fékkst loksins samþykkt.

Segir hann það snúa að því að tryggja lögreglunni heimildir til þess að ná árangri fyrir samfélagið og borgara þess í baráttunni við glæpasamtök. 

Veruleiki sem þurfi að horfast í augu við

„Þar fyrir utan, þá höfum við tiltölulega nýlega aukið við fjármögnun rannsókna á glæpastarfsemi af þessum toga og ég bind miklar vonir við að nýjar lagaheimildir og aukin fjármögnun inn í þennan málaflokk muni styrkja okkur í þessari baráttu,“ segir forsætisráðherrann.

„Það er sömuleiðis mjög mikilvægt að lögreglan á Suðurnesjum hefur breytt verklagi og aukið áherslur í að verja landamærin sem hefur skilað sér í margföldun á frávísunum af landamærunum. Þar spilar inn í bæði reynsla og þekking og stuðningur af alþjóðlegu samstarfi. Þetta er bara veruleiki sem við þurfum að horfast í augu við og bregðast við í samræmi við aðstæður,“ bætir hann við.

Segir hann þó að þjóðin þurfi að gæta sín á að selja sjálfri sér ekki þá hugmynd að hún sé laus við að taka á málum eins og þeim sem komið hafa upp í nágrannalöndum og sem stjórnvöld þar hafa þurft að fást við.

„Þetta er grafalvarleg þróun sem við ætlum að taka mjög fast á.“

Segir fyrirstöðu á þingi hafa valdið vonbrigðum

Erum við að bregðast of seint við þeirri þróun sem er að eiga sér stað hér heima?

„Ég held að það sé aldrei of seint að bregðast við. Það er auðvitað mjög löng saga af baráttu lögreglunnar við alþjóðlega glæpastarfsemi. Það eru mörg ár síðan að við sáum tilraunir glæpagengja til þess að koma sér fyrir. Við þekkjum til dæmis frávísanir mótorhjólagengja á Keflavíkurflugvelli og svo framvegis.

Áskoranirnar sem við stöndum frammi fyrir eru líka þær að tæknin er að breytast og menn eru farnir að nýta sér nýjar aðferðir við að brjóta lög. Ég held að það sé óraunhæft að ætla að við hefðum getað tryggt okkur einhvers konar bólusetningu gegn alþjóðlegri glæpastarfsemi. Aðalatriðið er að bregðast við núna í rauntíma,“ segir Bjarni.

Segir hann að það sem hafi valdið honum hvað mestum vonbrigðum varðandi þróun glæpastarfseminnar hér á landi sé fyrirstaðan sem sést hafi á þinginu fyrir því að lögregla myndi hafa tæki og tól til þess að verja samfélagið og borgara þess.

„Ég hef haft mestar áhyggjur af því. Að menn telji að með því að íslenska lögreglan sé ekki með rafbyssur og ekki með eftirlitsheimildir til jafns við aðra, að það sé leiðin okkar að öruggu og friðsælu samfélagi. Það er ákveðin blekking. Það er falleg hugsun eflaust á bak við það en það er algjörlega óraunsætt.“

Tekið tvo áratugi að opna augu þingsins

Spurður um hvort hann telji að sú fyrirstaða verði vægari í kjölfar þess hve hávær umræðan um alþjóðlega glæpastarfsemi virðist vera orðin hér heima svarar Bjarni játandi.

Segist hann sjálfur hafa farið fyrir tæpum tuttugu árum, sem þingmaður í allsherjarnefnd, til Danmerkur að kynna sér aðferðir danskra stjórnvalda til að takast á við samfélagslega ógn sem stafar af glæpasamtökum.

„Við vorum að skoða sérstaklega á þeim tíma þær heimildir sem lögreglan í Danmörku hefur til þess að rannsaka mál og uppræta slíka starfsemi. En það hefur tekið þessa tvo áratugi að opna augu þingsins fyrir mikilvægi þess að gripið sé inn í.

Ráðherrar Sjálfstæðisflokksins hafa ítrekað komið til þingsins með tillögur sem hafa ekki náð fram að ganga og þeir sem hafa stöðvað þær hafa alltaf gert það í nafni þess að þeir væru að verja samfélagið en þeir hafa einmitt verið að koma í veg fyrir að við næðum árangri í þessu,“ segir Bjarni Benediktsson forsætisráðherra að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert