Fara ætti varlega í að draga þá ályktun að ofbeldishegðun ungmenna megi rekja til minni kristinfræðslu í skólum. Aftur á móti skaðar það engan að læra sínar bænir og að bera virðingu fyrir öðru fólki eins og trúin boðar.
Erfitt er að skilja íslenska menningu vel án þess að hafa grunnþekkingu um kristna trú.
Þetta segir Sr. Eiríkur Jóhannsson, prestur í Hallgrímskirkju, í Dagmálum.
Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, ræddi um kristin gildi í Spursmálum síðastliðinn föstudag. Þar sagði Jón meðal annars:
„Við erum erum þjóð sem er kristin í grunnin. Við erum alin, eldri kynslóðir, miðlungs og eldri kynslóðir, í þessu landi á grundvelli kristinna gilda. Þetta hefur með skipulegum hætti, fræðsla á þessum vettvangi þar sem er verið að fræða okkur um samkenndina, láta okkur vinna í samkenndinni, láta okkur læra um fyrirgefninguna og kærleikann, þetta hefur allt verið tekið út úr íslensku skólakerfi. Það mega ekki einu sinni vera litlu jólin,“ sagði Jón meðal annars í Spursmálum.
Inntur eftir viðbrögðum við þessu og hvort að kristinfræðsla ætti að vera kennd reglulega í grunnskólum landsins segir Eiríkur:
„Það er náttúrulega ætlast til þess að kenna trúarbragðafræði í grunnskólum og ég held því miður að það hafi, kannski vegna umræðunnar í samfélaginu, þá hafi áherslan í skólunum orðið miklu minni í heild sinni heldur en að bókstafurinn í kennsluáætluninni hefur sagt til um.“
Eiríkur segir að auðvitað þurfi að kenna margt og erfitt að koma öllu að sem aðalnámskrá segir að þurfi að kenna. Hann myndi sjálfur vilja að börn fengju meiri fræðslu um kristna trú og honum þykir einnig mikilvægt að börn fái að kynnast grunnatriðum í öðrum trúarbrögðum.
„Þessi þáttur í heild sinni ætti náttúrulega að vera öflugri heldur en er vegna þess að það er algjör staðreynd að þetta er og verður ekki undan því vikist – hvaða álit sem menn hafa á kristni trú – þá er þetta náttúrulega stór hluti í okkar menningu. Hún verður ekki skilin með góðu móti nema að hafa þennan grunn,“ segir Eiríkur.
Hann segir þó að fara eigi varlega í það að draga þá ályktun að ofbeldisaldan að undanförnu megi rekja til þess að kristinfræðsla sé ekki lengur í skólum landsins.
„En hitt er aftur á móti algjör staðreynda að mínum dómi að það mun enginn skaðast af því að læra sínar bænir og trúin auðvitað byggir á því að kenna fólki að haga sér siðferðilega og bera virðingu fyrir öðru fólki. Kærleikur og friður er það sem trúin gengur út á, þannig það hlýtur þá að vera frekar í þá áttina að stuðla að því að menn vilji lifa friðsömu lífi,“ segir hann.
Eiríkur er gestur Dagmálum og í þættinum er rætt um trúna og boðun hennar til ungs fólks, stöðu Þjóðkirkjunnar, ofbeldið að undanförnu og margt fleira. Áskrifendur Morgunblaðsins geta horft á þáttinn í heild sinni hér að neðan.