Sagði vargöld ríkja á Íslandi

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins.
Inga Sæland, formaður Flokks fólksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, sagði vargöld ríkja á Íslandi í tengslum við undirheima og skipulagða glæpastarfsemi.

Hún sagði löngu tímabært að efla löggæsluna í landinu til að takast á við vandann.

Inga nefndi innbrot í Elko sem nýjasta dæmið þar sem tugum milljóna var stolið. Einnig sagði hún aldrei hafa verið framin eins mörg morð hérlendis á jafn skömmum tíma í sögu landsins. Nefndi hún einnig aukinn fjölda mála í tengslum við mansal.

„Svo núna erum við komin með mafíu. Við erum með undirheimamafíu sem allir vita af nema íslensk stjórnvöld og hvað eru þeir að gera í því? Þeir láta þetta bara danka. Það er ekki tekið á vandanum að neinu ráði og lögreglan er ráðþrota og hefur ekki mannafla til þess einmitt að ráðast að rótum vandans og uppræta hann,“ sagði hún og hét því að Flokkur fólksins myndi ráðast að rótum vandans fengi hann tækifæri til þess.

„Við í Flokki fólksins kærum okkur ekki um það að horfa á fallega landið okkar sökkva í sæ í boði þessarar ríkisstjórnar eins og raunverulega það er að gera hér og nú,“ bætti hún við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert