„Það eru peningarnir sem tala“

Finnbjörn A. Hermannsson, forseti ASÍ.
Finnbjörn A. Hermannsson, forseti ASÍ. mbl.is/Árni Sæberg

„Ég bæði fagna og er sorgmæddur yfir þessari ráðstefnu. Ég fagna áhuganum en er sorgmæddur yfir þörfinni á slíkri ráðstefnu hér á Íslandi,“ sagði Finnbjörn A. Hermannsson í umræðum í upphafi ráðstefnu ASÍ og SA um vinnum­an­sal á Íslandi.

„Þetta er ekki gott fyrir íslenskt samfélag og segir svolítið um hvar við erum stödd í þessum málum.

Sagði Finnbjörn töluvert hafa verið gert en það vanti alltaf framkvæmdina. Við værum dugleg að skrifa skýrslur og skipa nefndir en framkvæmdina vanti. Það væri takmarkað sem ASÍ gæti gert.

Sagði hann ábyrgð Alþýðusambands Íslands töluverða og henni væri tekið alvarlega. „Þetta er algjört krabbamein í íslensku samfélagi. Sagði hann atvinnurekendur geta gert töluvert mikið og stjórnvöld enn meira.

„Ef félagsmálaráðherra ætlar að koma hérna með einhverjar tilkynningar um að bæta í þá ætla ég að segja að það eru peningarnir sem tala í þessu sem öðru,“ sagði Finnbjörn og uppskar hlátur úr salnum.

20 ára gamalt vandamál

Finnbjörn vísaði til vinnumansals sem um 20 ára gamals vandamáls á íslenskum vinnumarkaði. Sagði hann búið að kryfja vandann vel og menn vissu út á hvað hann gengi. Hann sagði nauðsynlegt að upplýsa fólk þannig að fleiri væru á vaktinni svo hægt yrði að uppræta þetta vandamál.

„Vinnustaðaeftirlit verkalýðsfélaganna er mjög öflugt. Það er sameiginlegur gagnagrunnur með Vinnumálastofnun, Skattinum, löggunni og hverjum sem eru í kringum þetta.

Við tikkum í boxið þegar við teljum að það sé verið að brjóta á þessum, svíkja undan skatti, vinna svart eða hvort viðkomandi sé ekki með skráningu inn í landið en svo er bara ekkert að frétta,“ sagði Finnbjörn.

Sagði hann að þeir sem hafi úrræðin verði að grípa boltann þegar upplýsingarnar koma. Það sé lykilatriði til að ná utan um vandamálið. „Þeir sem geta beitt sér lagalega verða að gera það.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert