Þingnefnd rannsaki starfsemi bankanna

Bjarni Jónsson.
Bjarni Jónsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bjarni Jónsson, þingmaður VG, segir tímabært að skipa þingnefnd til að rannsaka starfsemi viðskiptabankanna. Rannsaka þurfi áhrif og skaða af fákeppni á bankamarkaði.

Undir liðum störf þingsins á Alþingi sagði hann mörgum hafa brugðið þegar Arion banki tilkynnti að eigendur hans hefðu hækkað arðsemiskröfu sína og bankinn yrði því að hækka vexti íbúðalána þrátt fyrir óbreytta stýrivexti.

Bjarni sagði bankann þarna vera með öðrum orðum að sækja meira fé í vasa viðskiptavina sinna. Bætti hann við að stóru bankarnir þrír hefðu í fyrra skilað 83,5 milljörðum króna í hagnað, þeim mesta frá hruni. Uppistaðan hefði verið vaxtatekjur.

Berjast í bökkum

Hann sagði þorra viðskiptavina Arion banka berjast í bökkum vegna verðbólgu og hárra vaxta á sama tíma og hann hagnaðist um 25,7 milljarða króna í fyrra og greiddi eigendum um 13 milljarða króna í arð.

Einnig benti Bjarni á að samningar um óverðtryggð húsnæðislán myndu losna á næstunni sem myndi valda stökkbreytingu í afborgunum lána.

„Margir til viðbótar munu verða neyddir í verðtryggð lán á afarkostum til að halda niðri greiðslubyrði lána og komast af. Þetta eru gríðarlega miklar hækkanir á skömmum tíma án réttlætingar á þjóð í greipum fákeppni á bankamarkaði,“ sagði hann og spurði hvort við værum að horfa upp á samráð stóru viðskiptabankanna gegn fólkinu í landinu.

„Það er tímabært að skipuð verði þingnefnd til að rannsaka starfsemi þeirra. Hér þarf Samkeppniseftirlitið einnig að stíga inn, efnahags- og viðskiptaráðherra, stjórnvöld að hysja upp um sig við innleiðingu EES-tilskipunar um neytendavernd og fjármálaþjónustu en á engu sviði er frammistaðan þar verri,“ sagði þingmaðurinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert